GSÍ fjölskyldan
/

Deildu:

Auglýsing

Íslandsmótið i golfi 2025 hófst í morgun. Hulda Bjarnadóttir, forseti GSÍ, setti mótið með formlegum hætti.

Úlfar Jónsson, sexfaldur Íslandsmeistari, sló fyrsta högg mótsins í logninu á Hvaleyrarvelli. Páll Sævar Guðjónsson kynnti Úlfar til leiks og fór yfir glæstan golfferil hans.

Veðrið lék við keppendur í dag. Lítill sem enginn vindur var á svæðinu meirihluta dags og lét sólin sjá sig á köflum. Hvaleyrarvöllurinn skartaði sínu fegursta, og var það umtalað á svæðinu hvað völlurinn liti vel út. Skorið var eftir því, en fjölmargir keppendur léku undir pari í dag.

Skoða stöðu mótsins

Myndasafn mótsins

Ræst var út í tæpa níu klukkutíma, frá kl. 07:00 að morgni til kl. 15:37. Keppendur mótsins eru alls 138, en 87 eru í karlaflokki og 51 í kvennaflokki.

Í karlaflokki voru það Dagbjartur Sigurbrandsson og Axel Bóasson sem léku best, á fimm höggum undir pari. Dagbjartur fékk sex fugla og einn skolla á hringnum. Íslandsmótið er annað mót Dagbjarts á GSÍ mótaröðinni í sumar, en hann varð þriðji í Korpubikarnum í júlí.

Hringur Dagbjarts

Axel fékk örn, fimm fugla og tvo skolla í dag. Enginn sótti fleiri högg á völlinn en heimamaðurinn. Axel hefur þrisvar orðið Íslandsmeistari í golfi, síðast árið 2018. Hann varð einnig Íslandsmeistari árið 2017, þegar mótið var haldið síðast á Hvaleyrarvelli.

Hringur Axels

Í kvennaflokki voru það Hulda Clara Gestsdóttir, ríkjandi Íslandsmeistari, og Karen Lind Stefánsdóttir, sem léku best.

Hulda kom í hús á 70 höggum, tveimur undir pari, fékk fimm fugla og þrjá skolla. Hún var með næstflesta fugla kvennaflokksins, en tapaði færri höggum en Elsa Maren, sem fékk sex.

Hringur Huldu

Karen Lind lék einnig á 70 höggum, fékk 16 pör og tvo fugla. Karen var eini kylfingur mótsins sem tapaði ekki höggi á hringnum. Þetta er fjórða mót Karenar á tímabilinu, en hún varð önnur í vormóti GM.

Hringur Karenar

Aftur er ræst út frá kl. 07:00 á morgun, en eftir hringinn verður niðurskurður. Einungis helmingur keppenda heldur áfram í síðustu tvo hringi mótsins. Eftir fyrsta hring er niðurskurður karla í +5 höggum, og kvenna í +9.

Bein útsending RÚV frá mótinu verður á milli 15:30-18:30 á morgun. Mikið hefur verið lagt í útsendingu mótsins, og hafa aldrei fleiri myndavélar verið á Íslandsmóti í golfi. Við hvetjum alla sem ekki geta mætt á völlinn til að fylgjast með!

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ