Íslandsmótið i golfi 2025 hófst í morgun. Hulda Bjarnadóttir, forseti GSÍ, setti mótið með formlegum hætti.
Úlfar Jónsson, sexfaldur Íslandsmeistari, sló fyrsta högg mótsins í logninu á Hvaleyrarvelli. Páll Sævar Guðjónsson kynnti Úlfar til leiks og fór yfir glæstan golfferil hans.
Veðrið lék við keppendur í dag. Lítill sem enginn vindur var á svæðinu meirihluta dags og lét sólin sjá sig á köflum. Hvaleyrarvöllurinn skartaði sínu fegursta, og var það umtalað á svæðinu hvað völlurinn liti vel út. Skorið var eftir því, en fjölmargir keppendur léku undir pari í dag.
Ræst var út í tæpa níu klukkutíma, frá kl. 07:00 að morgni til kl. 15:37. Keppendur mótsins eru alls 138, en 87 eru í karlaflokki og 51 í kvennaflokki.
Í karlaflokki voru það Dagbjartur Sigurbrandsson og Axel Bóasson sem léku best, á fimm höggum undir pari. Dagbjartur fékk sex fugla og einn skolla á hringnum. Íslandsmótið er annað mót Dagbjarts á GSÍ mótaröðinni í sumar, en hann varð þriðji í Korpubikarnum í júlí.

Axel fékk örn, fimm fugla og tvo skolla í dag. Enginn sótti fleiri högg á völlinn en heimamaðurinn. Axel hefur þrisvar orðið Íslandsmeistari í golfi, síðast árið 2018. Hann varð einnig Íslandsmeistari árið 2017, þegar mótið var haldið síðast á Hvaleyrarvelli.

Í kvennaflokki voru það Hulda Clara Gestsdóttir, ríkjandi Íslandsmeistari, og Karen Lind Stefánsdóttir, sem léku best.
Hulda kom í hús á 70 höggum, tveimur undir pari, fékk fimm fugla og þrjá skolla. Hún var með næstflesta fugla kvennaflokksins, en tapaði færri höggum en Elsa Maren, sem fékk sex.

Karen Lind lék einnig á 70 höggum, fékk 16 pör og tvo fugla. Karen var eini kylfingur mótsins sem tapaði ekki höggi á hringnum. Þetta er fjórða mót Karenar á tímabilinu, en hún varð önnur í vormóti GM.

Aftur er ræst út frá kl. 07:00 á morgun, en eftir hringinn verður niðurskurður. Einungis helmingur keppenda heldur áfram í síðustu tvo hringi mótsins. Eftir fyrsta hring er niðurskurður karla í +5 höggum, og kvenna í +9.
Bein útsending RÚV frá mótinu verður á milli 15:30-18:30 á morgun. Mikið hefur verið lagt í útsendingu mótsins, og hafa aldrei fleiri myndavélar verið á Íslandsmóti í golfi. Við hvetjum alla sem ekki geta mætt á völlinn til að fylgjast með!