Íslandsmót unglinga í höggleik fara fram dagana 15.-17. ágúst. Keppendur á aldrinum 15-18 ára leika á Þorláksvelli í Þorlákshöfn, á meðan 14 ára og yngri leika á Svarfhólsvelli á Selfossi.
Smelltu hér fyrir stöðuna í Þorlákshöfn
Smelltu hér fyrir stöðuna á Selfossi
Alls eru 103 keppendur skráðir til leiks í Þorlákshöfn og 92 á Selfossi. Á báðum stöðum eru leiknir þrír keppnishringir, en völlurinn á Selfossi er 14 holur.
Fyrsti keppnisdagur Þorlákshöfn
Í flokki 15-16 ára drengja var það Björn Breki Halldórsson, GKG, sem lék fyrsta hringinn best. Hann lék á 71 höggi, einum undir pari vallarins. Björn fékk fimm fugla og tapaði fjórum höggum á hringnum.

Annar er Arnar Daði Svavarsson, GKG, höggi á eftir Birni. Halldór Jóhannsson, GK, er þriðji á einu höggi yfir pari.
Í flokki 15-16 ára stúlkna er Akureyringurinn Bryndís Eva Ágústsdóttir með sex högga forystu. Hún lék fyrsta hringinn mjög vel, á pari vallarins. Enginn kylfingur í Þorlákshöfn tapaði færri höggum en Bryndís, en hún fékk einungis tvo skolla.

Björk Hannesdóttir, GA, er önnur á sex höggum yfir pari, en fimm kylfingar eru jafnir í þriðja sæti flokksins.
Í flokki 17-18 ára drengja leiðir Guðjón Frans Halldórsson, GKG, með fjórum höggum.

Þrír kylfingar eru jafnir í öðru sæti, á fjórum höggum yfir pari. Það eru þeir Guðlaugur Þór Þórðarson, GL, Hjalti Jóhannsson, GK og Gunnar Þór Heimisson, GKG.
Í flokki 17-18 ára stúlkna leiðir Fjóla Margrét Viðarsdóttir, GS, mótið með þremur höggum.

Auður Bergrún Snorradóttir, GM, Pamela Ósk Hjaltadóttir, GM, og Ninna Þórey Björnsdóttir, GKG, léku allar á 76 höggum, fjórum yfir pari og eru jafnar í öðru sæti eftir daginn.
Fyrsti keppnisdagur Selfoss
Í flokki 12 ára og yngri drengja leiðir Jón Reykdal Snorrason, GKG, mótið. Hann lék holurnar fjórtán á fjórum yfir pari, eða 58 höggum.

Í flokki 12 ára og yngri stúlkna leiðir Eiríka Malaika Stefánsdóttir, GM, mótið. Hún lék fyrsta hringinn á sextán höggum yfir pari, eða 70 höggum.

Það verður spennandi að fylgjast með þróun mála um helgina – við munum fylgjast með hér á golf.is og á miðlum GSÍ.