Evrópumót kvenna, karla, stúlkna – og pilta hefjast þriðjudaginn 8. júlí. Ísland er með lið í öllum fjórum mótunum.
Evrópumót karla fer fram á Írlandi og leikur karlaliðið í efstu deild. Sextán sterkustu sveitir Evrópu mætast á Killarney golfvellinum á Írlandi.
Fyrirkomulag mótsins er tveggja daga höggleikur og þriggja daga holukeppni. Leikinn er 36 holu höggleikur fyrstu tvo keppnisdagana. Efstu átta lið hans leika um Evrópumeistaratitilinn. Fimm af sex bestu skorunum telja í höggleiknum og því mikilvægt fyrir alla að leika vel. Síðustu þrjá daga mótsins er útsláttarkeppni, þar sem leiknir eru tveir leikir í fjórmenning fyrir hádegi og fimm í tvímenning eftir hádegi. Lið sem eru ekki að leika til sigurs í mótinu leika einn fjórmenning og fjóra tvímennings leiki.

Evrópumót karla 8.-12. júlí á Írlandi
Smelltu hér fyrir stöðuna hjá körlunum:
Sveit Íslands skipa:
Böðvar Bragi Pálsson, GR
Dagbjartur Sigurbrandsson, GR
Gunnlaugur Árni Sveinsson, GKG
Logi Sigurðsson, GS
Tómas Eiríksson Hjaltested, GR
Veigar Heiðarsson, GA
Þjálfari: Ólafur Björn Loftsson
Sjúkraþjálfari: Baldur Gunnbjörnsson

Killarney svæðið er ríkt af sögu og býður upp á stórbrotið umhverfi. Klúbburinn var stofnaður árið 1893 og er staðsettur innan Killarney þjóðgarðsins, með útsýni yfir vatnið Lough Leane og með útsýni að McGillicuddy Reeks-fjallgarðinum.
Völlurinn er 6.631 metra langur (7.252 yardar) og parið er 72. Völlurinn hefur hýst Irish Open mótið sex sinnum.
Svíþjóð mætir til leiks sem ríkjandi meistari eftir sigur í mótinu árið 2024, sem fram fór á Royal Park I Roveri vellinum á Ítalíu. Íslenska karlalandsliðið var í 2. deild á síðasta ári, en spilaði sig upp í deild þeirra bestu.
Englendingar eru sigursælasta þjóð mótsins með ellefu titla, en Skotland fylgir fast á hæla þeirra með átta, og Írland og Spánn hafa unnið mótið sex sinnum hvort.
Við munum fylgjast með gengi okkar kylfinga á öllum helstu miðlum GSÍ, fylgist með.