Evrópumót kvenna, karla, stúlkna – og pilta hófst þriðjudaginn 8. júlí. Ísland er með lið í öllum fjórum mótunum.
Smelltu hér fyrir stöðuna hjá körlunum:
Evrópumót karla fer fram á Írlandi og leikur karlaliðið í efstu deild. Sextán sterkustu sveitir Evrópu mætast á Killarney golfvellinum á Írlandi.
Fyrirkomulag mótsins er tveggja daga höggleikur og þriggja daga holukeppni. Leikinn er 36 holu höggleikur fyrstu tvo keppnisdagana. Efstu átta lið hans leika um Evrópumeistaratitilinn. Fimm af sex bestu skorunum telja í höggleiknum og því mikilvægt fyrir alla að leika vel. Síðustu þrjá daga mótsins er útsláttarkeppni, þar sem leiknir eru tveir leikir í fjórmenning fyrir hádegi og fimm í tvímenning eftir hádegi. Lið sem eru ekki að leika til sigurs í mótinu leika einn fjórmenning og fjóra tvímennings leiki.
Fyrsti keppnisdagur fór frábærlega af stað hjá karlaliðinu.
Þeir Gunnlaugur Árni Sveinsson og Veigar Heiðarsson léku best íslensku kylfinganna, báðir á fimm höggum undir pari og Dagbjartur Sigurbrandsson kom næstur á fjórum undir pari.
Fimm bestu skor liðsins telja, og lauk íslenska liðið leik á 347 höggum, eða 13 undir pari! Árangurinn skilaði þeim 2. sætinu eftir fyrsta keppnisdag og strákarnir því í lykilstöðu til að komast inn í 8 liða úrslitin.

Annar keppnisdagur fór ekki eins vel hjá okkar mönnum. Eftir frábæra spilamennsku á fyrsta keppnisdegi var heildarskor íslenska liðsins tuttugu höggum lakara á seinni hring höggleiksins.
Tómas Eiríksson Hjaltested lék best, á einum undir pari, og Gunnlaugur Árni lék á pari vallarins. Liðið féll niður um níu sæti, og endaði í ellefta í höggleiknum. Strákarnir munu því leika í B riðli mótsins, og geta best endað í 9. sæti.

Fyrsti leikur liðsins í útsláttarkeppninni verður gegn liði Hollands í fyrramálið. Þar teflir Ísland fram teymi í fjórmenning, og fjórum í tvímenning. Böðvar Bragi og Dagbjartur mynda saman íslenska fjórmenningsliðið, og fara þeir fyrstir út, kl 10:14 að staðartíma.
Uppfært 11. júlí
Leikurinn endaði með 3.5-1.5 sigri Hollands. Veigar Heiðarsson var eini íslenski kylfingurinn sem sigraði sinn leik, en Logi Sigurðsson gerði jafntefli í sínum leik eftir flotta frammistöðu. Þetta er þó ekki endastöð fyrir íslenska liðið.

Næsti leikur liðsins er gegn Portúgal. Portúgalska liðið hafnaði í 15. sæti höggleiksins og íslensku strákarnir eru með burði til að sigra leikinn örugglega. Ef leikurinn vinnst spilar Ísland gegn Eistlandi eða Tékklandi um 13. sæti mótsins.
Uppfært 12. júlí
Eftir einn dramatískasta leik mótsins hafði Ísland betur gegn Portúgal, 3-2. Þetta var mikilvægur sigur fyrir bæði lið, þar sem tapliðið myndi leika í 2. deild á næsta ári. Liðin skiptust á að sigra viðureignirnar þægilega, og fengu Gunnlaugur Árni og Logi Sigurðsson fyrstu tvö stig Íslands. Öll augu voru á leik Tómasar Hjaltested og Francisco Coelho, sem var síðasti leikur dagsins.
Tómas byrjaði leikinn af krafti og var fjórar holur upp á tímabili. Magnaður endasprettur Portúgalans kom leiknum í bráðabana, og drengirnir því á leið á 19. holuna. Eftir að 19. holan féll héldu þeir á þá 20.
Coelho átti langt pútt eftir fyrir fugli, sem hann tryggði. Tómas setti þá niður erfitt þriggja metra pútt fyrir fugli og sigraði leikinn. Fagnaðarlætin voru mikil hjá Tómasi og liðfélögum hans, sem voru komnir í leikinn mikilvæga um 13. sætið.

Mótherjinn í síðasta leiknum voru Eistar. Sigur var ekki mikilvægur, heldur nauðsynlegur, þar sem leikið var uppá að halda sér í efstu deild.
Eftir tap í fjórmenning fór íslensk sýning af stað. Veigar Heiðarsson lék gegn Richard Teder, sem verður fyrsti Eistinn til að keppa á Opna breska meistaramótinu. Það hafði lítil áhrif á Veigar sem sigraði leikinn 7/6, vippaði í, sló í fyrir erni og spilaði heilt yfir ótrúlegt golf. Tómas Hjaltested sigraði sinn leik einnig, og því Gunnlaugur eða Logi sem þyrftu að skila úrslitastiginu. Leikir þeirra voru báðir mjög jafnir en aldrei í mikilli hættu. Báðir skiluðu þeir sínu, íslenska sveitin sigrar leikinn 3.5-1.5 og heldur sér í deild þeirra bestu.

Evrópumót karla 8.-12. júlí á Írlandi
Smelltu hér fyrir stöðuna hjá körlunum:
Sveit Íslands skipa:
Böðvar Bragi Pálsson, GR
Dagbjartur Sigurbrandsson, GR
Gunnlaugur Árni Sveinsson, GKG
Logi Sigurðsson, GS
Tómas Eiríksson Hjaltested, GR
Veigar Heiðarsson, GA
Þjálfari: Ólafur Björn Loftsson
Sjúkraþjálfari: Baldur Gunnbjörnsson

Killarney svæðið er ríkt af sögu og býður upp á stórbrotið umhverfi. Klúbburinn var stofnaður árið 1893 og er staðsettur innan Killarney þjóðgarðsins, með útsýni yfir vatnið Lough Leane og með útsýni að McGillicuddy Reeks-fjallgarðinum.
Völlurinn er 6.631 metra langur (7.252 yardar) og parið er 72. Völlurinn hefur hýst Irish Open mótið sex sinnum.
Svíþjóð mætir til leiks sem ríkjandi meistari eftir sigur í mótinu árið 2024, sem fram fór á Royal Park I Roveri vellinum á Ítalíu. Íslenska karlalandsliðið var í 2. deild á síðasta ári, en spilaði sig upp í deild þeirra bestu.
Englendingar eru sigursælasta þjóð mótsins með ellefu titla, en Skotland fylgir fast á hæla þeirra með átta, og Írland og Spánn hafa unnið mótið sex sinnum hvort.
Við munum fylgjast með gengi okkar kylfinga á öllum helstu miðlum GSÍ, fylgist með.