Dagbjartur Sigurbrandsson, GR, hlaut Björgvinsskálina fyrir lægsta skor áhugakylfings í karlaflokki á Íslandsmótinu í golfi 2025.
Skálin er veitt til heiðurs Björgvini Þorsteinssyni, en árið 2021 voru liðin 50 ár frá því að Björgvin varð í fyrsta sinn Íslandsmeistari í golfi. Björgvin varð sexfaldur Íslandsmeistari og er næst sigursælasti kylfingur Íslandsmótsins í karlaflokki.
Þetta er í fimmta skiptið sem þessi viðurkenning er veitt, og í fjórða skiptið sem sami einstaklingur sigrar mótið og hlýtur Björgvinsskálina. Þetta er þó í fyrsta skiptið sem systkini vinna bæði verðlaunin fyrir lægsta skor áhugakylfings, en Perla Sól Sigurbrandsdóttir vann Guðfinnubikarinn.

2025: Dagbjartur Sigurbrandsson, GR
2024: Aron Emil Gunnarsson, GOS
2023: Logi Sigurðsson, GS
2022: Kristján Þór Einarsson, GM
2021: Aron Snær Júlíusson, GKG
Verðlaunagripinn hafði Björgvin Þorsteinsson ánafnað GSÍ, en um er að ræða verðlaun sem Björgvin hlaut fyrir fyrsta Íslandsmeistaratitil sinn árið 1971.
Eins og áður segir er Björgvin sexfaldur Íslandsmeistari en hann sigraði í fyrsta sinn árið 1971 og hann sigraði síðan fimm ár í röð á tímabilinu 1973-1977. Aðeins Birgir Leifur Hafþórsson hefur sigrað oftast í karlaflokki eða 7 sinnum en Birgir Leifur landaði sjöunda titlinum á Jaðarsvelli á Akureyri árið 2016. Úlfar Jónsson er einnig með sex Íslandsmeistaratitla líkt og Björgvin.
Björgvin, sem var fæddur árið 1953, lést þann 14. október 2021. Hann var á meðal keppenda á Íslandsmótinu 2021 eftir tveggja ára hlé. Hann tók þátt á 56 Íslandsmótum, þar af 55 sinnum í röð, sem er met sem verður seint slegið.