Golfsamband Íslands í samstarfi við GSFÍ, ÍF, GK og EDGA mun halda boðsmót fyrir kylfinga með fötlun í tengslum við Íslandsmótið í Golfi 2025.
Þetta er annað árið í röð sem slíkt mót fer fram, en keppnin í dag fer fram á Hvaleyrarvelli Golfklúbbsins Keilis, og eru alls sjö keppendur.
Smelltu hér fyrir rástíma, stöðu og úrslit:
Markmið mótsins er að efla mótahald innanlands fyrir kylfinga með fötlun og auka á sýnileika starfsemi GSFÍ.
Stefnan er að halda árlegan viðburð þar sem fremstu kylfingum landsins er boðin þátttaka.
Hér er hlekkur með ýmsum upplýsingum um golf fyrir kylfinga með fötlun.
Golfsamtök fatlaðra á Íslandi, GSFÍ, hafa lengi staðið fyrir golfæfingum fyrir fatlaða og hafa margir góðir kylfingar stigið sín fyrstu skref í golfíþróttinni undir handleiðslu kennara á vegum GSFÍ. Þá hafa samtökin oft staðið fyrir ferðum til útlanda þar sem margir þessara kylfinga hafa keppt á alþjóðlegum golfmótum, staðið sig með stakri prýði og unnið til verðlauna.
Samtökin hafa alla tíð lagt áherslu á að vera með vel menntaða PGA-kennara og að kennslan sé einstaklingsmiðuð og hagað þannig að hún henti hverjum einstaklingi fyrir sig. Auk þess að kenna golftækni er lögð áhersla á helstu golfreglur og undirstöðuatriði er varða umgengni og háttvísi úti á vellinum.
GSFÍ hefur haldið úti reglubundnum æfingum í Hafnarfirði hjá golfklúbbnum Keili, Vestmannaeyjum hjá golfklúbbi Vestmannaeyja, Akureyri hjá golfklúbbi Akureyrar og á Selfossi hjá golfklúbbi Selfoss.
Hvetjum alla til að kynna sér það góða starf sem GSFÍ er að vinna.