Site icon Golfsamband Íslands

Bjarni Hannesson tekur við sem vallarstjóri hjá Nesklúbbnum

Á dögunum undirrituðu þeir Kristinn Ólafsson formaður Nesklúbbsin og Bjarni Þór Hannesson golfvallatæknifræðingur samning þar sem Bjarni er ráðinn vallarstjóri hjá Nesklúbbnum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Nesklúbbnum.

Bjarni hefur mjög mikla þekkingu og reynslu sem bæði vallarstjóri og ráðgjafi í sínum fagi. Árin 2013 – 2018 var hann vallarstjóri hjá Golfklúbbnum Keili í Hafnarfirði, þar á undan vallarstjóri hjá Golfklúbbi Grindavíkur og Golfklúbbnum Leyni á Akranesi ásamt því að hafa einnig starfað sem aðstoðarvallarstjóri hjá Golfklúbbi Reykjavíkur.

Þá hefur Bjarni einnig starfað erlendis á m.a. Sunningdale golvellinum í Englandi og Nashawtuc Country Club í Bandaríkjunum ásamt fleiri völlum sem haldið hafa stórmót í golfi. Hann hefur oftar en einu sinni verið valinn vallarstjóri ársins innan raða SÍGÍ (samtaka íslenskra golf- og íþróttavallastarfsmanna), nú síðast í febrúar 2018.

Bjarni stundaði nám í golfvallarfræðum við Elmwood College í Skotlandi og er jafnframt eini Íslendingurinn sem hefur náð sér í M.Sc. gráðu í Sport Turf Technology þar sem hann stundaði nám við Cranfield háskólann.

Bjarni er 37 ára gamall, uppalinn á Akranesi og býr í dag ásamt eiginkonu sinni og þremur börnum í Reykjavík. Hann mun hefja störf 1. desember næstkomandi og býður Nesklúbburinn hann innilega velkominn til starfa.

Exit mobile version