Golfbílar gegna lykilhlutverki í daglegum rekstri og upplifun á golfvöllum. Þeir auðvelda kylfingum að komast milli brauta, sérstaklega á stórum völlum eða í krefjandi landslagi. Þetta eykur ekki aðeins þægindi heldur gerir einnig fleiri kylfingum kleift að njóta íþróttarinnar, þar á meðal eldri einstaklingum og þeim sem eiga erfitt með gang.
Auk þess stuðla golfbílar að betri nýtingu vallarins með því að flýta fyrir leik og draga úr biðtíma. Fjölmargir golfklúbbar á Íslandi hafa gert samninga um golfbíla við Bílaleigu Akureyrar en í dag má finna um 80 slíka golfbíla víða um land. Umræddir bílar eru merktir með kjörorðunum „Við keyrum leikinn áfram“ en auk þess að vísa til akstursins er einnig verið að vísa til þess að eðlilegum leikhraða sé haldið uppi á völlum landsins.

Arna Hrönn Skúladóttir, markaðsstjóri Bílaleigu Akureyrar.
„Golfbílasamstarf okkar hófst með Golfklúbbi Akureyrar með sex golfbílum fyrir rúmum 10 árum síðan. Í dag erum við með samninga við 12 golfklúbba af ýmsum stærðum víða um land og golfbílaflotinn er að stækka jafnt og þétt og það styttist óðum í golfbíl númer 100 frá Bílaleigu Akureyrar á völlum landsins“.
Aðkoma Bílaleigu Akureyrar að íþróttum einskorðast þó síður en svo við golfíþróttina. Fyrirtækið er stoltur bakhjarl fjölda íþróttafélaga og er í dag með styrktarsamninga við um 110 deildir íþróttafélaga um allt land. Aðgengi allra barna og unglinga að íþrótta- og tómstundastarfi er samfélagslegt verkefni og þar lætur Bílaleiga Akureyrar sitt ekki eftir liggja.
