Annar keppnisdagur Íslandsmótsins í golfi 2025 fór fram í dag.
Aðstæður reyndust krefjandi fyrir keppendur, en mikill vindur var á svæðinu. Skor kylfinga var eftir því, en meðalskorið hækkaði um tæp þrjú högg á milli hringja, úr 77.64 í 80.5 högg. Mestan mun mátti finna á holum 5, 11 og 16, en allar eru þær langar holur sem spiluðust á móti vindi.
Ræst var út í tæpa níu klukkutíma, líkt og í gær, frá kl. 07:00 að morgni til kl. 15:37. Rástímum var þó snúið við á milli daga, þannig fyrstu kylfingarnir út í gær fóru síðastir af stað í dag.
Lykilatriði var að halda sér í leik og lágmarka mistök, þar sem einungis helmingur keppenda héldi áfram leik á morgun. Niðurskurðarlínan hjá körlum var +11, en +20 hjá konum.
Axel Bóasson hélt forystu sinni í karlaflokki og lék annan góðan hring í dag. Hann kom í hús á 70 höggum, tveimur undir pari og sjö undir í heildina. Axel fékk fimm fugla og þrjá skolla á hring dagsins. Enginn hefur sótt fleiri högg á völlinn en Axel, en hann er kominn með einn örn og tíu fugla.

Dagbjartur Sigurbrandsson situr í öðru sætinu, höggi á eftir efsta manni. Dagbjartur lék á 71 höggi í dag. Eftir tíu holur var GR-ingurinn kominn fjóra undir par, og níu undir í heildina. Par 3 holurnar á seinni níu reyndust honum erfiðar. Á báðum holunum sló Dagbjartur í glompu, fékk skolla á 12. holunni og tvöfaldan á þeirri 17.
Dagbjartur hefur fengið tíu fugla í mótinu og leikið frábært golf hingað til. Hann hefur leikið par 4 holurnar best allra í mótinu, og er þar með meðalskor upp á 3.75. Það verður spennandi að fylgjast með einvígi hans og Axels á morgun, en þeir hefja leik kl. 13:16.

Suðurnesjamaðurinn Logi Sigurðsson lék þó best allra í rokinu í dag, og kom í hús á 68 höggum. Logi lék fyrri níu holurnar tvo yfir pari, en setti í fluggír á þeim seinni. Þar fékk hann sex fugla og þrjú pör, og því á 30 höggum á seinni níu holunum. Greinilegt er að Logi sér vanur háu vindstigi.

Í kvennaflokki hélt Hulda Clara Gestsdóttir, ríkjandi Íslandsmeistari, forystu sinni. Hún lék á 70 höggum annan daginn í röð, og kórónaði hring sinn með frábærum fugli á 18. holunni. Hulda hefur fengið tíu fugla í mótinu hingað til, tveimur fleiri en Ragnhildur Kristinsdóttir.
Líkt og í gær fékk Hulda fimm fugla og þrjá skolla. Hún hefur leikið par 3 holurnar best allra, ásamt Loga Sigurðssyni. Þar hefur Hulda ekki enn fengið skolla, en hún nældi sér í fugl á sjöttu holunni á báðum hringjum.

Guðrún Brá Björgvinsdóttir er önnur á einum yfir pari. Hún lék hring dagsins á einu höggi yfir pari og er eini kylfingurinn sem kemst nálægt skori Huldu.
Guðrún hefur leikið fyrri níu holur vallarins best allra í kvennaflokki, en hún er þrjá undir pari í hrauninu.

Þéttur pakki kylfinga er á eftir Huldu og Guðrúnu. Ragnhildur Kristinsdóttir leiðir þar hópinn, en hún er á fimm höggum yfir pari í heildina.
Bein útsending RÚV frá mótinu verður á milli 15-17:45 á morgun. Mikið hefur verið lagt í útsendingu mótsins, og hafa aldrei fleiri myndavélar verið á Íslandsmóti í golfi. Við hvetjum alla sem ekki geta mætt á völlinn til að fylgjast með!