Íþrótta- og ólympíusamband Íslands opnaði í dag Afreksmiðstöð Íslands. Miðstöðin er ætluð til að efla íslenskt afreksfólk til að ná lengra á sínu sviði. Þar að auki mun þetta styðja við vegferð sambandsins að faglegri umgjörð afreksstarfssins hér á landi.
Samhliða opnuninni var það tilkynnt að Vésteinn Hafsteinsson myndi láta af störfum sem afreksstjóri og væri kominn í nýtt hlutverk sem ráðgjafi miðstöðvarinnar. Hann mun þá færast yfir í hlutverk sem snýr að beinum samskiptum við afreksíþróttafólkið.
Kristín Birna Ólafsdóttir-Johnson tekur við af Vésteini sem nýr afreksstjóri ÍSÍ. Kristín hefur starfað á afrekssviði ÍSÍ frá árinu 2018 og stígur því inn í starfið með góða reynslu og skilning á hlutverkinu.