Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. Mynd/let.
Auglýsing

„Á fyrstu sjö mótunum á þessu ári hafa hlutirnir gengið upp og niður hjá mér. Stundum hefur þetta verið mjög erfitt. Við höfum verið að skoða þetta utanfrá og reynt að greina hlutina. Ég er á sama stað og í fyrra á LPGA mótaröðinni. Ástandið er því ekkert alvarlegt og vonandi hef ég lært eitthvað á undanförnum vikum,“ segir Ólafía Þórunn Kristinsdóttir í samtali við golf.is.

Ólafía hefur leikið á sjö mótum á LPGA mótaröðinni á þessu tímabili og komist í gegnum niðurskurðinn á tveimur þeirra. Íþróttamaður ársins 2017 segir að stærsta verkefnið sé að ná betri tökum á hugarfarinu og stjórna væntingunum.

„Tæknilega er ég í ágætum málum. Reyndar hefur dræverinn minn dottið aðeins út og ég þarf að laga það. Ég skipti líka um pútter. Það hefur gengið mjög vel að pútta eftir það. Ég þarf aðeins að slaka á í hausnum. Minnka væntingarnar og njóta þess að vera í þessu umhvefi og sætta mig við að það er gott að fá par á hverja einustu holu. Ef ég hefði leikið á parinu á síðustu vikum þá hefði ég verið í góðum málum. Ég hef verið að reyna að spila undir parinu, tekið áhættu, og það hefur ekki gengið upp,“ bætir Ólafía Þórunn við en hún tekur næst þátt á Volunteers of America sem fram fer í Texas 3.-6. maí

„Ég ætla að nota það mót í að æfa þessa hluti sem ég þarf að laga. Þar ætla ég að reyna að slaka aðeins á, taka eitt högg í einu. Ég þarf að vera sterkari andlega og hvert einasta högg þarf ekki alltaf að vera fullkomið. Ég þarf að láta þetta flæða.“

Eftir mótið í Texas fær Ólafía Þórunn viku frí frá keppni en hún ætlar að nota tímann vel við æfingar í Pinehurst í Bandaríkjunum.

Derrick Moore þjálfarinn minn kemur til Pinehurst í þeirri viku. Á þeim tíma ætlum við að æfa mikið og fínpússa hlutina. Í raun er ég alltaf að vinna í sömu hlutunum, smáatriði í tækninni, keppnisvellirnir eru líka mismunandi og ég þarf að aðlagast þeim og skipuleggja leik minn miðað við þá velli sem við keppum á.“

Ólafía segir að annað árið á LPGA mótaröðinni sé mjög líkt fyrsta árinu á LPGA.

„Ég hélt að ég yrði reynslumeiri á öðru keppnistímabilinu. Ég á enn eftir að læra helling og það er efst á forgangslistanum að stilla væntingunum í hóf, njóta þess að spila og slaka aðeins á,“ sagði Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ