Landsliðshópur Íslands í golfi hélt í æfingaferð til Spánar 6.-16. janúar. Hópurinn dvaldi annað árið í röð á La Finca golfsvæðinu. Afrekskylfingar frá sjö golfklúbbum fóru með hópnum, en einnig voru margir atvinnukylfingar og þjálfarar með í ferðinni.
Ólafur Björn Loftsson, afreksstjóri GSÍ var mjög ánægður með ferðina og fann fyrir mikilli ánægju meðal kylfinga og þjálfara.
“Þetta er fjórða árið í röð sem við förum í æfingaferð til Spánar í janúar og þessi ferð er að mínu mati sú besta hingað til. Við erum sífellt að læra af fyrri reynslu til að nýta ferðina sem best. Ferðin í ár var þremur dögum lengri og það hafa aldrei verið jafn margir þjálfarar til staðar fyrir kylfingana. Allir klúbbar sem eiga fulltrúa í landsliðshópnum sendu þjálfara í ferðina sem skiptir mjög miklu máli fyrir okkar kylfinga.”
“La Finca svæðið er stórkostlegt fyrir æfingaferð af þessu tagi. Æfingaaðstaðan er mjög góð og völlurinn er í frábæru standi. Þar að auki var farið á Lo Romero og Melia Villaitana golfvellina sem eru einnig frábær prófraun fyrir okkar kylfinga.”
“Þessa ferð tel ég vera eina allra mikilvægustu ferð ársins hvað okkar kylfinga varðar. Flestar ferðir erlendis eru keppnisferðir þar sem ramminn er eðlilega þrengri og markmiðin önnur. Það er ómetanlegt að komast í æfingaferð á þessum árstíma þar sem við getum stutt hvert við annað, leyft okkur að prófa nýja hluti, fá leiðsögn frá fullt af þjálfurum og atvinnukylfingum og lært betur inn á okkar leik.”
“Ég vil hrósa okkar ungu kylfingum fyrir mikinn áhuga og góða einbeitingu í ferðinni. Jafnframt vil ég þakka okkar atvinnukylfingum og þjálfurum sem eru frábærar fyrirmyndir og lögðu sig öll fram við að miðla þekkingu sinni og reynslu áfram. Að lokum vil ég svo koma á framfæri innilegu þakklæti til allra aðila innan golfhreyfingarinnar sem gera okkur kleift að fara í svona umfangsmikla og mikilvæga ferð ” sagði Ólafur Björn.
Hér má sjá myndir frá ferðinni.














