Á golfþingi 2025 kynnti stjórn Golfsambands Íslands nýja stefnu til ársins 2030. Þar var kynnt forgangsröðun verkefna vegna aðstöðuleysis og þörfin á frekari uppbyggingu rædd.
Vegna vinsælda og vaxtar golfíþróttarinnar á Íslandi var rætt um þróun og lausnir. Hugmynd að þjóðarleikvangi golfsins var kynnt sem og ólíkar útfærslur á golfvöllum. Þá voru minni par 3 vellir nefndir sem heppileg lausn fyrir sveitarfélög. Þannig væri hægt að byggja upp fjölnota útivistarsvæði fyrir íbúana, en um leið koma til móts við eftirspurn og biðlista iðkenda, m.a. barna og unglinga.
Stefna GSÍ til 2030 tekur á aðstöðuleysi
Frá árinu 2019 hefur fjölgun iðkenda í golfi verið 65%. Síðastliðið ár var fjölgunin 11% og fjölgar börnum og unglingum hlutfallslega mest. Í dag æfa 3.600 börn og unglingar golf og eru biðlistar í flestum golfklúbbum höfuðborgarinnar. Það er því ljóst að börn og unglingar munu ekki eiga greiðan aðgang að æfingum í sínu sveitarfélagi með þeirri þróun sem horft er fram á.
Hluti af kjarnastarfsemi Golfsambands Íslands er að halda úti mótaröð ár hvert, og að reka málaflokk afreks- og landsliðsmála. Þar þykir orðið ljóst að með áframhaldandi þróun mun þrengja að mótahaldi Golfsambandsins.
Í nýrri stefnu, sem tekið hefur gildi, er lögð áhersla á uppbyggingu barna- og unglingastarfs um land allt, og að gera golf aðgengilegt fyrir alla. Hluti af þeirri vegferð er að sjá til þess að aðgengi kylfinga að golfvöllum og golfvallarsvæðum sé í takt við eftirspurn á landsvísu.

Mannfjöldaspá
Golfsambandið hefur átt nokkra fundi í framhaldi af Golfþingi vegna aðstöðuleysis flestra golfklúbba höfuðborgarsvæðisins. Ef þróun heldur áfram sem horfir er ljóst að uppbyggingu þarf að halda áfram.
Varfærin spá KPMG um þróun golfiðkenda segir kylfinga vera 34.600 árið 2030. Þar er reiknað með að vöxtur hægist verulega á komandi árum. Meðalspáin segir kylfinga geta verið 39.000 árið 2030, og að sú tala geti orðið rúmlega 56.000 árið 2050.
| Ár | Varfærin spá | Meðalspá | Háfleyg spá |
| 2030 | 34.600 | 39.000 | 47.600 |
| 2040 | 42.200 | 48.300 | 60.900 |
| 2050 | 47.700 | 56.100 | 72.900 |
Stjórn GSÍ ákvað því á árinu að teikna upp tillögur að aðstöðu sem getur tryggt mótahald sambandsins til framtíðar og þá um leið aðstöðu fyrir starfsemi afreks- og landsliðskylfinga. Verkfræðistofan VSB var fengin til að vinna útfærðar hugmyndir sem kynntar voru á Golfþingi 2025. Í framhaldinu verða mótaðar tillögur um samstarf, fjármögnun og rekstrarform. Slíkt fer eftir áhuga og stuðningi sveitarfélaga á stórhöfuðborgarsvæðinu.
Þjóðarleikvangur golfsins kynntur á Golfþingi
Lilja Karlsdóttir frá VSB verkfræðistofu fjallaði á þinginu um forgreiningu á afreksmiðstöð golfhreyfingarinnar. Hugmyndin gerði ráð fyrir alþjóðlega viðurkenndri afreksmiðstöð, 18 holu alþjóðlegum keppnisvelli, útiæfingasvæði og aðstöðu innandyra. VSB framkvæmdi frumkostnaðaráætlun fyrir byggingu á útiæfingasvæði og valkostagreiningu fyrir mögulegar staðsetningar.

Með þessari uppbyggingu væri hægt að styrkja afreksstarf til muna og styðja enn betur við okkar fremstu kylfinga. Með 18 holu keppnisvelli væri þá einnig hægt að fjölga lausum rástímum á höfuðborgarsvæðinu til muna, með því að færa hluta mótahalds sambandsins á keppnisvöllinn. Þá væri einnig skapaður vettvangur fyrir alþjóðlegt mótahald hér á landi, bæði fyrir áhuga- og atvinnukylfinga.
Græn svæði undir meðallagi OECD
Ísland er langt undir OECD viðmiðum er kemur að grænum svæðum fyrir íbúa í þéttbýli og gætu golfvellir og fjölnota útivistarsvæði reynst sveitarfélögum heppilegur kostur til að hækka viðmið og veita íbúum aðgang að grænum svæðum. Viðmið OECD miðar við að íbúar hafi aðgengi innan 10 mínútna að grænu svæði í þéttbýli. Einungis 3,5% svæða í þéttbýli eru skipulögð sem græn svæði hérlendis samanborið við 17% meðaltal OECD-ríkjanna.
Golfsamband Íslands hefur unnið ötullega að góðri sjálfbærnivegferð og hefur fyrst íþróttasambanda á Íslandi gefið út sjálfbærniskýrslu.
Í skýrslunni er unnið með gögn frá golfklúbbum, sem fengin eru í gegnum sjálfbærnihugbúnaðarfyrirtækið Klappir. Þar eru tekin saman töluleg gögn fyrir golfhreyfinguna á Íslandi sem tengjast umhverfismálum, s.s. kolefnisspori, eldsneytisnotkun, vatnsnotkun og úrgangsmálum.
Rík áhersla er lögð á að mæla atriði er tengjast samfélagslegum þætti starfseminnar, s.s. útfrá aðbúnaði starfsfólks, stefnum og aðgerðum til að tryggja heilsu og öryggi iðkenda. Hægt er að nálgast skýrsluna hér að neðan.
Hagræn áhrif golfhreyfingarinnar á Íslandi
Vöxtur golfíþróttarinnar á Íslandi er óneitanlegur. Tölurnar sýna að golfið er orðið stór og vaxandi hreyfing sem skilar mælanlegum tekjum, styður fjölbreytta atvinnustarfsemi (klúbba, verslanir, ferðaþjónustu og inniaðstöðu) og hefur bein áhrif á sveitarfélög þar sem golfvellir og golfstarfsemi eru hluti af innviðum.
KPMG tók saman gögnin: beint hagspor golfhreyfingarinnar er metin á um 12 milljarða króna. Í þeirri tölu vegur þyngst rekstur golfklúbba, næst golfverslun, síðan golfferðir og að lokum tekjur sem tengjast golfhermum einkaaðila.

Þróun heildartekna golfklúbba á Íslandi sýnir mikla langtímaaukningu, úr um 733 m.kr. árið 2003 í um 4.954 m.kr. árið 2024. Það samsvarar um 576% aukningu á tímabilinu og voru heildartekjur á hvern kylfing 188.005 krónur árið 2024.
Þá er áætluð velta ferðamennsku tengdri golfi um 800 m.kr. og um 15.000 gistinætur sagðar seldar á Íslandi á ári vegna golfleiks. Áhrif ferðalanganna eru því víðtæk.
Erlendir kylfingar reynast almennt mjög góðir ferðamenn, en þeir eyða um 60% meira í dvöl sinni á landinu en hinn almenni ferðamaður.
Ólíkar útfærslur af golfvelli og golfvallarsvæðum
Í umræðunni og fundaröð GSÍ verða lagðar áherslur á aðstöðuleysi almennt og biðlað til sveitarfélaga að huga að útfærslu fyrir þá eftirspurn sem myndast hefur. Til að mynda þekkja margir “batta” verkefni FIFA. Svipaða sögu má segja frá Frakklandi. Í aðdraganda Ryder keppninnar og Ólympíuleikanna fór franska golfsambandið í uppbyggingu á fjölda minni golfvalla sem og á æfingasvæðum í þéttbýli. Í dag reka þessi svæði sig sjálf og er verið að kynna sveitafélögum kosti þess að byggja upp slík svæði.
Hugmyndin var að fækka hindrunum fyrir nýliða (tími, vegalengd, kostnaður og erfiðleikastig) með styttri og einfaldari völlum sem eru opnir öllum, hraðir í spilun og geta nýtt land sem annars nýtist illa, með áherslu á samfélagsleg og umhverfisleg gildi.

Golf Paris Longchamps er hluti af verkefninu. Svæðið er oft nefnt „eina golfið í París“ innan borgarmarkanna. Þar er æfingasvæði, púttflöt og stuttaspilssvæði, ásamt þjónustu eins og kennurum og golfskóla. Aðstaðan er almennt opin daglega, en þetta vel nýtta svæði inniheldur einnig kappreiðabraut, opið svæði fyrir tónleikahald o.fl.
Verkefnið var stutt af bæði opinberum aðilum sem og einkaaðilum, og hefur hjálpað gífurlega í að ná til breiðari hópa. Fjölgun kvenna og barna hefur aukist mest, en kylfingar í Frakklandi telja nú um 450.000.
Stefna, ársskýrsla og þing
Ný stefna sambandsins mun móta framtíð golfhreyfingarinnar næstu fimm árin. Markmið hennar er að komandi kynslóðir elski golf og upplifi það sem aðgengilega, heilbrigða og samfélagsvæna íþrótt.
Hægt er að nálgast stefnu hreyfingarinnar, uppgjör ársins og margt fleira í ársskýrslu GSÍ hér að neðan.
Hægt er að nálgast upptöku af þinginu í heild sinni í hlekkjum hér að neðan.