Guðrún Brá Björgvinsdóttir, Ragnhildur Kristinsdóttir, Andrea Bergsdóttir og Hulda Clara Gestsdóttir hefja í dag leik í lokaúrtökumóti Ladies European Tour (LET) mótaraðarinnar í Marrakesh í Marokkó. Leiknir eru fimm hringir á næstu fimm dögunum og hljóta efstu kylfingar mótsins keppnisrétt á LET fyrir tímabilið 2026.
Alls eru 155 kylfingar frá 40 þjóðum skráðir til leiks í lokamótinu sem fer fram dagana 16.-20. desember á tveimur völlum; Royal Golf Marrakech og Al Maaden Golf Marrakech.
Allir íslensku kylfingarnir hefja mótið á Al Maaden vellinum í dag.

Ragnhildur og Andrea tryggðu sér sæti beint inn í lokaúrtökumótið með frábærum árangri á LET Access mótaröðinni í sumar, þar sem þær enduðu í áttunda og tólfta sæti stigalistans. Efstu sjö kylfingar LET Access komust beint inn á mótaröðina, en þeir sem enduðu í sætum 8-32 á stigalistanum fengu sjálfkrafa þátttökurétt í lokaúrtökumótinu.
Guðrún Brá og Hulda Clara spiluðu sig inn í lokamótið í úrtökumóti sem fór fram í Marrakesh í síðustu viku. Þar var keppt á fjórum mismunandi völlum og 90 kylfingar tryggðu sig inn á lokamótið.
Guðrún Brá lék á Samanah Golf by Nicklaus vellinum og átti þar frábært mót. Hún lék annan hringinn á sex höggum undir pari, sem reyndist besti hringur mótsins. Staða hennar var aldrei í hættu og endaði Íslandsmeistarinn í þriðja sæti, en efstu tuttugu kylfingarnir komust áfram.
Hulda Clara lék á Noria Golf Club og hafnaði þar í 16. sæti. Eftir örugga spilamennsku á fyrstu tveimur hringjunum byrjaði hún þriðja hringinn illa og var komin við niðurskurðarlínuna þegar nokkrar holur voru eftir. Frábær endasprettur kom Huldu áfram, en hún fékk m.a. örn á fimmtándu holu lokahringsins. Þetta var fyrsta mót Huldu Clöru á vegum LET, en hún gerðist atvinnukylfingur í haust.
Til mikils er að vinna í lokaúrtökumótinu, en LET mótaröðin er sú sterkasta í Evrópu, og sú næst sterkasta í heimi.
Efstu 20 kylfingar mótsins fá fullan þátttökurétt á LET fyrir tímabilið 2026.
Kylfingarnir í sætum 21-50 fá skilyrtan þátttökurétt á LET fyrir tímabilið 2026.
Allir aðrir kylfingar sem náðu inn í lokamótið fá takmarkaðan þátttökurétt á LET fyrir tímabilið 2026.
Við munum fylgjast með gengi íslensku keppendanna næstu daga hér á golf.is og á miðlum GSÍ.

