Blaðamaður breska dagblaðsins Daily Mail heimsótti Ísland í september til að kanna landið sem áfangastað fyrir golfferðamenn. Í ítarlegri ferðasögu á vef miðilsins er því lýst hvernig Ísland, sem flestir tengja við norðurljós, goshveri, jökla og jarðböð, eigi nú heima á lista yfir áhugaverðustu golfáfangastaði Evrópu. Þar er sagt frá golfmenningu þjóðarinnar, völlum á höfuðborgarsvæðinu og því hvernig golfið getur verið fullkomin viðbót við hefðbundna upplifun ferðamanns á Íslandi.
Í heimsókninni lék blaðamaðurinn þrjá frábæra golfvelli. Hvaleyrarvöll Golfklúbbsins Keilis, Hlíðavöll Golfklúbbs Mosfellsbæjar og Brautarholtsvöll.

Hann nefnir að á Íslandi séu tugir golfvalla í rekstri og fleiri á teikniborðinu, sem sé ótrúlegt miðað við íbúafjölda landsins.
Lögð er áhersla á að golfferð til Íslands snúist ekki bara um golfið. Reykjavík sé litrík og lifandi borg þar sem hús séu skreytt vegglist og göturnar séu fullar af áhugaverðum verslunum og kaffihúsum, og að það sé auðvelt að sameina golfhringi við heimsókn í jarðböð, góða veitingastaði og göngutúra um miðbæinn.
Á síðasta kvöldi ferðarinnar sá hópurinn norðurljósin. Í lok greinarinnar dregur blaðamaðurinn þá ályktun að Ísland hafi lengi verið draumaáfangastaður margra, en að hann hafi alls ekki gert sér grein fyrir gæðum og fjölbreytni golfvalla landsins. Eftir heimsóknina hvetji hann fólk til að setja íslenska golfvelli á sína óskalista ásamt því að hrósa ástandi valla og aðstöðu. Vægast sagt góð meðmæli þarna á ferð, en heimsókn blaðamannsins kom til vegna samstarfs GSÍ og Íslandsstofu.
