Ólafur Björn Loftsson, afreksstjóri Golfsambands Íslands, valdi á dögunum 27 leikmenn í landsliðshóp GSÍ. Hópurinn kom saman í fyrstu æfingabúðir vetrarins dagana 21.-23. nóvember.
“Landsliðskylfingar voru vel stemmdir á fyrstu landsliðshelgi vetrarins og það ríkir mikil eftirvænting eftir spennandi og fjölbreyttum verkefnum næstu mánuði. Það er mikill meðbyr í íslensku afreksgolfi um þessar mundir þar sem stuðningur til afrekskylfinga heldur áfram að aukast og okkar fremstu kylfingar eru að ná eftirtektarverðum árangri.”
Fyrsta verkefni hópsins í æfingabúðunum fór fram í Háskólanum í Reykjavík á föstudeginum þar sem Ólafur Björn fór yfir kynningu á starfseminni fyrir kylfinga, foreldra þeirra og þjálfurum.

Á laugardeginum æfði hópurinn á golfhermastaðnum Nítjánda við Bíldshöfða þar sem Örninn Golfverslun var áður til húsa. Landsliðskylfingarnir höfðu þar til afnota átta Trackman golfherma með nýjustu tækni og nýttu einnig tækifærið og spreyttu sér í pílu í hádegishlénu. Laugardagskvöldið fór svo fram æfing í knattspyrnuhúsinu Fellinu í Mosfellsbæ. Á sunnudeginum æfði hópurinn í aðstöðu Keilis í Hraunkoti þar sem Steinn Baugur Gunnarsson, Guðmundur Örn Árnason og Baldur Gunnbjörnsson sáu meðal annars um líkamsmælingar landsliðskylfinga.
Í byrjun janúar á næsta ári fer landsliðshópurinn í æfingaferð til Spánar á La Finca golfsvæðið í Alicante annað árið í röð og hópurinn fer síðan í tvær keppnisferðir til Portúgal í febrúar og mars.
“Æfingaferðin heppnaðist mjög vel á þessu ári og við vorum mjög ánægð með allt svæðið. Þessi ferð er ein sú mikilvægasta á árinu fyrir okkar afrekskylfinga og þjálfara. Það eru forréttindi að geta æft á svona flottum golfvelli og styrkt tengslin á milli okkar allra. Einnig er mjög ánægjulegt að allur hópurinn sé að fara að keppa í fjórum alþjóðlegum mótum í vetur í Portúgal. Við erum afar þakklát að geta boðið okkar afrekskylfingum upp á þetta tækifæri og hlökkum mikið til.”









Landsliðshópurinn er þannig skipaður:
| Arnar Daði Svavarsson | GKG |
| Arnar Freyr Viðarsson | GA |
| Ágúst Már Þorvaldsson | GA |
| Ásdís Rafnar Steingrímsdóttir | GR |
| Björn Breki Halldórsson | GKG |
| Bryndís Eva Ágústsdóttir | GA |
| Elva María Jónsdóttir | GK |
| Embla Hrönn Hallsdóttir | GKG |
| Erna Steina Eysteinsdóttir | GR |
| Eva Fanney Matthíasdóttir | GKG |
| Eva Kristinsdóttir | GM |
| Guðlaugur Þór Þórðarson | GL |
| Gunnar Þór Heimisson | GKG |
| Gunnlaugur Árni Sveinsson | GKG |
| Halldór Jóhannsson | GK |
| Hjalti Kristján Hjaltason | GKG |
| Kristján Karl Guðjónsson | GM |
| Lilja Maren Jónsdóttir | GA |
| Markús Marelsson | GK |
| Máni Freyr Vigfússon | GK |
| Óliver Elí Björnsson | GK |
| Pamela Ósk Hjaltadóttir | GKG |
| Perla Sól Sigurbrandsdóttir | GKG |
| Sara María Guðmundsdóttir | GM |
| Skarphéðinn Egill Þórisson | NK |
| Tómas Eiríksson Hjaltested | GR |
| Veigar Heiðarsson | GA |




