GSÍ fjölskyldan
/

Deildu:

Ragnhildur er á meðal efstu kylfinga LET Access tímabilsins
Auglýsing

Lokamót LET Access mótaraðarinnar fer fram á Gambito Golf Calatayud vellinum á Spáni dagana 16.-18. október. Í mótið mæta efstu kylfingar tímabilsins og er til mikils að vinna. Efstu sjö kylfingar stigalistans í lok tímabils vinna sér inn fullan þátttökurétt á LET (Evrópumótaröðinni) á næsta tímabili.

Atvinnukylfingarnir Ragnhildur Kristinsdóttir (Ragga) og Andrea Bergsdóttir hafa báðar leikið frábært golf í sumar og eru á meðal keppenda mótsins. Ragga situr í 6. sæti stigalistans fyrir lokamótið og Andrea í því 12.

Í frétt dagsins förum við yfir tímabil fyrrum Íslandsmeistarans og tökum á henni stöðuna fyrir mótið á Spáni.

Þetta er þriðja tímabil Röggu á LET Access mótaröðinni, en hennar besti árangur á fyrstu tveimum árunum var 17. sætið.

Árangur Röggu á tímabilinu

Í sumar hefur Ragga slegið öll sín met og verið á meðal efstu kylfinga í fjölmörgum mótum. Í þeim fjórtán mótum sem hún hefur leikið í hefur hún fjórum sinnum verið á meðal tíu efstu og þrisvar í efstu tveimur sætunum.

Ragnhildur braut blað í íslenskri golfsögu í júlí þegar hún varð fyrsti íslenski kylfingurinn til að vinna mót á mótaröðinni. Eftir sigurinn hefur hún haldið áfram góðu gengi sínu og lék m.a. bráðabana um sigur í öðru móti í september.

Golfsambandið náði á Ragnhildi á dögunum.

Þú hefur leikið um alla Evrópu í sumar og fer lokamótið fram á Spáni. Í hvaða landi hefur þér fundist skemmtilegast að spila á tímabilinu og afhverju?

Við spilum á mörgum skemmtilegum stöðum um alla Evrópu en Terre Blanche í Frakklandi er örugglega með fallegri völlum sem ég hef spilað á. Ekki ein hola þar sem bakgrunnurinn svíkur þig. Síðan sérstaklega núna í ár er búið að vera gaman að spila í Svíþjóð, út því að það var þar sem að hlutirnir fóru að gerast hjá mér og skorið fór að endurspegla spilamennskuna; síðan sakar ekki að tala tungumálið og líða mun meira eins og heima hjá sér útaf því.

Nú er mánuður frá síðasta móti, hvernig hefurðu nýtt tímann í þessari löngu pásu?

Já, þessar þrjár vikur voru MJÖG kærkomnar þar sem að það var búin að vera lítil pása síðan um miðjan júní. Ég tók 10 daga þar sem ég að leyfði settinu að vera inn í geymslu, á meðan ég hugsaði meira um líkama og sál. Eyddi miklum tíma í ræktinni, sjúkraþjálfun, nuddi, og náði að mæta á skrifstofuna til að skila tímum í “auka” vinnunni. Um mánaðarmótin byrjaði ég aftur að æfa, og var það til að halda mér við. Maður er ekki að fara breyta heiminum á svona stuttum tíma, þannig það er í raun að ýta undir það sem gengur vel og kíkja aðeins á það sem tölfræðin segir að mætti vera betra.

Þú hefur leikið frábært golf á tímabilinu og ert í 6. sæti stigalistans fyrir lokamótið. Efstu 7 kylfingarnir vinna sér inn þátttökurétt á LET, breytir það einhverju í þinni nálgun?

Í rauninni ekki, ég er vissulega í góðri stöðu og margt sem þarf að gerast. En á endanum get ég ekki stjórnað því sem hinar gera, það eina sem ég get gert er að fara út á völl og setja eins góða sveiflu/stroku á öll högg; og telja það síðan upp í lokin. Markmiðið mitt í þessu móti er það sama og í fyrsta móti tímabilsins, þetta er einungis eitt skref á vegferðinni.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ