Atvinnukylfingurinn Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GR, lék frábært golf á 1. stigi úrtökumóts fyrir DP World Tour atvinnumótaröðina. Mótaröðin er sú sterkasta í Evrópu.
Leikið var á Arlandastad Golf vellinum í Svíþjóð. Keppendur voru 81, en efstu 17 kylfingarnir halda áfram í næsta stig úrtökumóta.
Eftir fyrsta hring var Guðmundur jafn í 5. sæti mótsins á tveimur höggum undir pari. Hann flaug í gegnum niðurskurð eftir annan hring upp á 71 högg.
Besti hringur hans í mótinu kom á þriðja keppnisdegi, þegar Guðmundur lék á 66 höggum. Á hringnum fékk hann örn, fimm fugla og þrjá skolla.
Lokahringinn lék Guðmundur á 69 höggum og endaði jafn í 1. sæti mótsins ásamt Bandaríkjamanninum Ben Warian. Þar sem ekki þurfti að fá sigurvegara í mótið deila þeir með sér sigrinum og verðlaunafé upp á 2.125 evrur hvor.

Alls er keppt á tíu keppnisstöðum á 1. stigi úrtökumótsins haustið 2025 og alls eru sjö íslenskir keppendur sem taka þátt að þessu sinni á 1. stigi úrtökumótsins.
Guðmundur var sá eini sem keppti þessa helgina, en sex íslenskir kylfingar hefja leik næstu helgi í Danmörku. Það eru þeir Hlynur Bergsson, Hákon Örn Magnússon, Sigurður Arnar Garðarsson, Kristófer Orri Þórðarson, Dagbjartur Sigurbrandsson og Aron Snær Júlíusson.