Íslensku atvinnukylfingarnir Andrea Bergsdóttir og Ragga Kristinsdóttir voru báðar á meðal fimmtán efstu á Lavaux Ladies Open mótinu á LET Access sem lauk í dag. Mótið var það næst síðasta á mótaröðinni í sumar.
Leikið var á Golf de Lavaux vellinum í vesturhluta Sviss. Völlurinn er par 72 og 5.587 metra langur.
Spilamennska Andreu
Andrea endaði í jöfn 9. sæti mótsins á fimm höggum undir pari. Sláttur hennar var svo gott sem fullkominn. Samkvæmt tölfræði hennar á heimasíðu LET Access hitti Andrea svo gott sem allar brautir og flatir vallarins. Hún tapaði einungis höggum á einni holu í mótinu, þegar hún fékk fjórfaldan skolla á 17. holunni í gær.

Með árangrinum fer Andrea upp um eitt sæti á stigalista mótaraðarinnar, upp í það tólfta. Þetta er í fjórða skiptið í sumar sem hún endar á meðal tíu efstu.
Andrea situr 458 stigum frá 7. sætinu mikilvæga fyrir lokamótið, en efstu 7 kylfingarnir í lok tímabils fá fullan þátttökurétt á LET mótaröðinni á næsta ári.
Spilamennska Röggu
Ragga endaði jöfn í 15. sætinu á fjórum höggum undir pari. Hún lék fyrsta hringinn á 75 höggum, en lék mjög vel eftir það. Annan hringinn lék hún á 69 höggum og þann þriðja á 68.

Ragga situr í 6. sæti stigalistans, einungis tveimur stigum á eftir Amalie Leth-Nissen í fimmta. Annað sætið í Frakklandi í síðustu viku kom Röggu upp í 5. sæti stigalistans, en hún hefur svo gott sem tryggt sér sæti á LET mótaröðinni á næsta ári.