Íslenska stúlknalandsliðið í golfi keppir á heimsmeistaramóti stúlknalandsliða 2025, World Junior Girls Championship, sem fram fer á St. Cathatrines G&CC vellinum í Kanada dagana 17.-20. september. Þetta er þriðja árið í röð sem íslenska landsliðinu er boðið að taka þátt í þessu móti.
Mótið er einstaklings – og liðakeppni. Leiknar verða 72 holur í höggleik þar sem tvö bestu skorin telja á hverjum hring í liðakeppninni.
Smelltu hér fyrir stöðuna í einstaklingskeppninni:
Smelltu hér fyrir stöðuna í liðakeppninni:
Fyrir hönd Íslands leika Bryndís Eva Ágústsdóttir, GA, Eva Kristinsdóttir, GM, og Pamela Ósk Hjaltadóttir, GM.
Bryndís Eva varð stigameistari 15-16 ára stúlkna í sumar, annað árið í röð. Hún sigraði fimm mót og varð tvisvar í öðru sæti. Bryndís varð Íslandsmeistari flokksins í bæði höggleik og holukeppni.
Eva lék einungis í þremur mótum unglingamótaraðarinnar í sumar en vann tvö þeirra. Hún lék í flokki 17-18 ára og varð Íslandsmeistari í holukeppni í lok ágúst.
Pamela Ósk Hjaltadóttir varð önnur á stigalista 17-18 ára. Hún tók þátt í 6 mótum á tímabilinu og var í verðlaunasæti í þeim öllum. Hún sigraði á einu móti, varð þrívegis í öðru sæti og tvisvar í þriðja sæti.
Alls taka 23 sveitir þátt í mótinu. Tvö lið eru frá Kanada og þátttökuþjóðir því 22. Hvert lið er skipað þremur kylfingum og keppendur því 69 í heildina.
Fyrsti hringur mótsins fór af stað fyrr í dag og munum við fylgjast með gengi íslenska stúlknalandsliðsins á næstu dögum.