GSÍ fjölskyldan
/

Deildu:

Auglýsing

Íslenski landsliðskylfingurinn Gunnlaugur Árni Sveinsson endaði annar í Jackson T. Stephens Cup sem fram fór í Illinois í gær. Í mótið, sem sýnt var á Golf Channel, mættu sex af sterkari skólum háskólagolfsins.

Smelltu hér til að sjá úrslit mótsins:

Gunnlaugur lék hringina þrjá á 72-64-69 og lauk leik á fimm höggum undir pari í heildina, tveimur höggum á eftir William Sides úr SMU. Einungis einn kylfingur tapaði færri höggum en okkar maður í mótinu. Eftir þrjá skolla á fyrstu tíu holum fyrsta hrings setti Gunnlaugur í næsta gír og tapaði einu höggi á síðustu 44 holum mótsins.

Á öðrum keppnisdegi lék Gunnlaugur á 64 höggum, sex undir pari, sem reyndist besti hringur dagsins og var jafn sem besti hringur mótsins. Þar fékk hann sex fugla og tapaði ekki höggi.

Mynd LSU

Skóli Gunnlaugs, LSU, lék best í liðakeppninni, þar sem bestu samanlögðu skor liðsins telja á hverjum degi.

Smelltu hér fyrir stöðuna í liðakeppninni:

Í dag mætast efstu tvö lið höggleiksins, LSU og North Carolina, í úrslitaleik mótsins. Þar leika allir leikmenn liðanna tvímenning þar sem fimm stig og sigur í mótinu er undir.

Gunnlaugur mætir hinum Bandaríska Keaton Vo, sem lék best allra úr North Carolina skólanum. Keaton endaði höggleikinn jafn í 3. sæti á fjórum undir pari, svo búast má við spennandi einvígi í kvöld.

Hægt verður að fylgjast með úrslitaleiknum í kvöld á Golf Channel.

Tímabilið fer vel af stað hjá Gunnlaugi Árna, sem situr í 14. sætinu á heimslista áhugamanna. Með árangri helgarinnar þykir þó líklegt að hann stökkvi upp í 11. eða 12. sætið, sem væri hans besta staða á listanum til þessa.


Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ