Mikill áhugi var á Íslandsmótinu í golfi 2025 sem fram fór á Hvaleyrarvelli dagana 7.-10. ágúst. Þetta kemur fram í gögnum frá RÚV.
Bein útsending var frá síðustu þremur keppnisdögum mótsins, og varði útsending í 3-4klst. í senn.
Uppsafnað áhorf var 14.5%, en alls horfðu tæplega 40 þúsund manns á útsendingar frá Íslandsmótinu í golfi frá föstudegi til sunnudags.

Mest var áhorfið á síðustu holum mótsins, en þá voru um 20 þúsund áhorfendur með stillt á RÚV.
Fleiri karlar horfðu á útsendinguna í ár eða 18,3% á móti 10,6% kvenna.
Stórt stökk var á áhorfi mótsins í samanburði við síðustu ár, en tæplega 40% aukning var á uppsöfnuðu áhorfi milli ára. Þá var mótið í ár með mesta áhorf Íslandsmóta síðustu fimm ára, og þjónar sem hvatning til að bjóða upp á enn betri útsendingu að ári.
Ár | Völlur | Áhorf% | Áhorfendur |
2025 | Hvaleyrarvöllur | 14.5 | 38.425 |
2024 | Hólmsvöllur í Leiru | 10.7 | 28.355 |
2023 | Urriðavöllur | 11.0 | 29.150 |
2022 | Vestmannaeyjavöllur | 9.8 | 25.970 |
2021 | Jaðarsvöllur | 9.0 | 23.850 |
Áhuginn á mótinu í ár er í samræmi við glæsilegt mót Golfklúbbsins Keilis, afbragðsgóða útsendingu RÚV og undirbúningsvinnu Golfsambands Íslands. Fyrst og fremst voru það þó keppendur mótsins sem buðu upp á frábært sjónvarpsefni og héldu mikilli spennu allt til enda.
Íslandsmótið í golfi 2026 fer fram á Korpúlfsstaðavelli Golfklúbbs Reykjavíkur – sjáumst þar!