Íslandsmót unglinga 2025 í holukeppni fer fram á Hlíðavelli í Mosfellsbæ dagana 23.-25. ágúst.
Hér má sjá rástíma, stöðu og úrslit mótsins
111 kylfingar eru skráðir í átta flokka mótsins. Pamela Ósk Hjaltadóttir, GM, er með lægstu forgjöfina eða +2.9. Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar sendir flesta keppendur í mótið, alls 27. Á þeirra vegum keppa í mótinu níu stúlkur og átján drengir.
Keppt er í eftirtöldum flokkum:
Stúlknaflokkur 12 ára og yngri, hámarksforgjöf 40,0 – rauðir teigar
Stúlknaflokkur 13-14 ára, hámarksforgjöf 32,0 – rauðir teigar
Stúlknaflokkur 15-16 ára, hámarksforgjöf 20,0 – bláir teigar
Stúlknaflokkur 17-18 ára, hámarksforgjöf 15,0 – bláir teigar
Drengjaflokkur 12 ára og yngri, hámarksforgjöf 40,0 – rauðir teigar
Drengjaflokkur 13-14 ára, hámarksforgjöf 32,0 – bláir teigar
Drengjaflokkur 15-16 ára, hámarksforgjöf 20,0 – gulir teigar
Drengjaflokkur 17-18 ára, hámarksforgjöf 15,0 – hvítir teigar
Leikin er útsláttarkeppni án forgjafar:
1. umferð: 16 manna holukeppni
2. umferð: 8 manna holukeppni þeirra sem áfram komast
3. umferð: Undanúrslit, 4 manna holukeppni þeirra sem áfram komast
4. umferð: Úrslit, leikur um 3. sæti og úrslitaleikur
Röðun leikmanna í 16 manna úrslitum er samkvæmt skráningarröð þátttakenda í 7. grein í flokkum 15-16 ára og 17-18 ára. Stigahæsti leikmaður á stigamótaröð unglinga leikur við þann stigalægsta (eða leikmanninn með hæstu forgjöf kl. 8:00 morguninn eftir að skráningarfresti lýkur, ef teknir eru inn leikmenn án stiga á stigamótaröðinni), leikmaðurinn með næst flest stig á stigamótaröð unglinga leikur við þann næst stigalægsta (eða leikmanninn með næst hæstu forgjöf kl. 8:00 morguninn eftir að skráningarfresti lýkur, ef teknir eru inn leikmenn án stiga á stigamótaröðinni) o.s.frv. Röðun leikmanna í 16 manna úrslitum í flokkum 12 ára og yngri og 13-14 ára er eftir forgjöf. Röð ákvarðast af forgjöf kl. 8:00 morguninn eftir að skráningarfresti lýkur. Standi val milli leikmanna með sömu forgjöf skal hlutkesti ráða). Forgjafarlægsti leikmaðurinn leikur við þann forgjafarhæsta, leikmaður með næst lægstu forgjöf leikur við leikmann með næst hæstu forgjöf og svo koll af kolli. Ef keppendur í tilteknum flokki eru 8 eða færri er 16 manna úrslitum sleppt og keppendur fara beint í 8 manna úrslit, með sambærilegri röðun og lýst er varðandi 16 manna úrslit.