GSÍ fjölskyldan
/

Deildu:

Mynd/Fannar
Auglýsing

Gunnlaugur Árni Sveinsson flaug áfram í 64 manna úrslit U.S. Amateur mótsins, sem fer fram í Kaliforníu þessa dagana. Gunnlaugur lék fyrri hring höggleiksins á tveimur höggum undir pari og þann seinni á tveimur höggum yfir pari. Hann var því á pari eftir hringina tvo, sem skilaði honum 14. sæti höggleiksins. Hinn bandaríski Preston Stout sigraði höggleikinn á átta höggum undir pari, eftir frábæran seinni hring.

U.S. Amateur mótið er árlegt mót á vegum bandaríska golfsambandsins. Mótið í ár fer fram á hinum sögufræga The Olympic Club dagana 11.-17. ágúst. Á fyrstu tveimur hringjum mótsins er leikinn höggleikur. Allir kylfingar leika einn hring á Lake Course vellinum og einn hring á Ocean Course vellinum. Efstu 64 kylfingar höggleiksins halda áfram í holukeppni mótsins, sem alfarið er leikin á Lake Course vellinum. Útsláttarkeppnin fer fram yfir fimm daga, og lýkur með 36 holu einvígi síðustu tveggja kylfinganna, sunnudaginn 17. ágúst.

Seinni hringur Gunnlaugs í höggleiknum var á Lake Course vellinum, sem er bæði lengri og erfiðari en Ocean Course völlurinn. Gunnlaugur fékk tvo skolla á fyrstu þremur holunum en lék vel eftir það. Hann fékk tvo fugla og einn tvöfaldan skolla á síðustu fimmtán holunum, og lauk hringnum því á tveimur höggum yfir pari.

Hægt er að sjá úrslit höggleiksins hér

Gunnlaugur er í 13 sæti heimslista áhugakylfinga

Fyrsti leikur Gunnlaugs í holukeppninni er gegn Bandaríkjamanninum Max Herendeen. Max er sautjándi á heimslista áhugakylfinga og hefur leikið frábært golf undanfarin tvö árin. Árið 2024 vann hann NCAA Stanford svæðismótið og tryggði liði sínu sæti í úrslitum háskólagolfins. Í úrslitunum endaði hann annar. Max lék sitt fyrsta PGA mót fyrir rúmum tveimur vikum, þegar hann endaði í 93. sæti í 3M Open mótinu.

Hægt er að fylgjast með stöðunni hér

Nú standa einungis sex sigrar á milli Gunnlaugs og sigurs í mótinu. Verðlaunin eru svo ekki af verri endanum.

Sigurvegari mótsins fær:

  • Boð í Masters mótið
  • Sæti í U.S. Open á næsta ári
  • Sæti í Opna breska á næsta ári

Ásamt því að opna á ótal margar dyr í golfheiminum. Við munum fylgjast vel með gengi Gunnlaugs í mótinu, bæði hér á golf.is og á öðrum miðlum GSÍ.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ