Eva Kristinsdóttir, GM, hefur leikið sig inn í 64 manna úrslit á The Girls Amateur Championship sem fram fer dagana 11.-16. ágúst 2025. Mótið, sem haldið er á Conwy vellinum í Wales, er eitt það sterkasta á ári hverju fyrir kylfinga 18 ára og yngri.
Alls hófu 144 keppendur leik í höggleikshluta mótsins. Þar voru leiknir tveir 18 holu hringir, þar sem efstu 64 kylfingarnir halda áfram í útsláttarhluta mótsins. Eftir höggleikinn er leikin holukeppni, en hún hefst í dag.
Tveir íslenskir kylfingar tóku þátt í mótinu.
- Auður Bergrún Snorradóttir
- Eva Kristinsdóttir
Eva lék höggleikinn á fimm höggum yfir pari, og endaði jöfn í 49. sæti. Hún er því á leið áfram í útsláttarhluta mótsins, þar sem hún mætir hinni spænsku Blanca Gómez-Balboa. Blanca lék höggleikinn á einu höggi undir pari. Leikur þeirra hefst kl. 12:40 og verður hægt að fylgjast með stöðunni í hlekk hér að neðan.

Smelltu hér fyrir stöðu mótsins
Auður Bergrún komst ekki í gegnum niðurskurð. Hún endaði jöfn í 138. sæti höggleiksins eftir hringi upp á 86-79 högg.

Mótið á sér langa sögu. Fyrst var keppt árið 1919. Árið 2022 vann hin breska Lottie Woad mótið, en hún hefur farið gífurlega vel af stað á sínum atvinnumannaferli og situr í dag í 19. sæti heimslista kvenna.