Íslandsmótið i golfi 2025 hófst í morgun. Hulda Bjarnadóttir, forseti GSÍ, setti mótið með formlegum hætti.
Úlfar Jónsson, sexfaldur Íslandsmeistari, sló fyrsta högg mótsins í logninu á Hvaleyrarvelli. Páll Sævar Guðjónsson kynnti Úlfar til leiks og fór yfir glæstan golfferil hans.
Úlfar varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn árið 1986, þá 17 ára gamall. Hann er enn í dag sá yngsti til að verða Íslandsmeistari karla í golfi. Á næstu sex árunum bætti Úlfar við sig fimm Íslandsmeistaratitlum til viðbótar, og sótti því alls sex titla á árunum 1986-1992.

Úlfar starfaði sem landsliðsþjálfari í fimm ár, en lét af störfum árið 2016 til að sinna sínu aðalstarfi sem íþróttastjóri Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar. Á tíma hans sem landsliðsþjálfari var mörgum markmiðum náð, og má þar helst nefna að koma atvinnukylfingi inn á mótaröð þeirra bestu.
Árið 2019 var Úlfar sæmdur gullmerki Golfsambands Íslands, sem er bæði viðurkenning fyrir störf hans í þágu íþróttarinnar og hans farsæla golfferil.
Karen Sævarsdóttir, sem sló fyrsta höggið 2024, var einnig viðstödd setningu mótsins, ásamt mörgum af stólpum íslensku golfhreyfingarinnar.
Hér er myndasyrpa frá því í morgun þegar upphafshöggið var slegið og Íslandsmótið sett.















