KPMG hefur á nýjan leik sett upp mælaborð fyrir Íslandsmótið í golfi, sem fer fram á Hvaleyrarvelli dagana 7.-10. ágúst. Í mælaborðinu má sjá gögn frá öllum Íslandsmótum síðan 2001. Hægt er að skoða bestu skorin, erfiðustu holurnar og margt fleira. Þetta er annað árið í röð sem mælaborðið er unnið í aðdraganda mótsins.
KPMG hefur verið stuðningsaðili Golfsambandsins til fjölda ára og samstarfið verið afar farsælt. Golfíþróttin heldur áfram stöðugum vexti sínum, og hefur KPMG sérstaklega beint sjónum sínum að því að styðja við uppbyggingarstarf íþróttarinnar.
Til þess að afrekskylfingar landsins geti tekið betri ákvarðanir í sínum leik hafa ráðgjafar KPMG greint fyrirliggjandi gögn um Íslandsmót GSÍ allt frá árinu 2001 og sett ýmsar áhugaverðar upplýsingar fram í mælaborði á vef KPMG. Um er að ræða mikið magn af gögnum sem sett eru fram með einföldum hætti og veita innsýn í fjölmarga þætti í leik kylfinga í gegnum tíðina. Þar má nefna forgjafarþróun mótanna, hvaða keppendur hafa náð flestum fuglum, ásamt ýmsum öðrum fróðleik.

KPMG mun einnig stilla upp tölfræði í útsendingu sjónvarpsins frá Íslandsmótinu sem framundan er. Það verður lögð áhersla á að draga fram áhugaverða tölfræðiþætti sem tengjast sterkustu kylfingum landsins og einnig tölfræði frá fyrri Íslandsmótum á Hvaleyrarvelli. Seinni níu holur vallarins hafa breyst mikið á undanförnum árum, og verður spennandi að sjá hvernig þær breytingar hafa áhrif á skor leikmanna.
Samstarf KPMG og Golfsambands Íslands hefur verið farsælt og öflugt í gegnum árin,“ segir Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri KPMG á Íslandi.
„Það skiptir okkur miklu máli að geta stutt við golfíþróttina á Íslandi með fjölbreyttum hætti, hvort sem er við almenna útbreiðslu, ungliðastarfi eða með áframhaldandi þróun á golfmælaborðinu. Við erum sérstaklega ánægð með hversu vel hefur tekist til við að uppfæra golfmælaborðið frá síðasta ári. Nýja útgáfan er bæði aðgengilegri og ítarlegri og veitir áhugaverða innsýn í lykiltölur um leik afrekskylfinga á Íslandsmótum frá árinu 2001.“

Brynjar Geirsson, framkvæmdastjóri Golfsambands Íslands, tók í svipaða strengi.
„Farsælt samstarf Golfsambands Íslands og KPMG er okkur mjög mikilvægt en fyrirtækið hefur sýnt sambandinu mikinn stuðning undanfarin ár og komið að mikilvægum verkefnum með sinni sérþekkingu. Við erum þakklát fyrir aðstoð KPMG í tengslum við úrvinnslu á tölfræði um Íslandsmótið í golfi með ítarlegri greiningu sinni á gögnum um mótið frá árunum 2001 til 2025.“
Hér má nálgast mælaborðið á vefsíðu KPMG.
Hér er best að nálgast mælaborðið í síma