GSÍ fjölskyldan
/

Deildu:

Auglýsing

Ragnhildur Kristinsdóttir, atvinnukylfingur úr Golfklúbbi Reykjavíkur, stóð uppi sem sigurvegari á Vasteras Open mótinu í Svíþjóð. Hún er fyrsti íslenski kylfingurinn sem sigrar á LET Access mótaröðinni!

Hægt er að skoða úrslit mótsins hér

Leikið var á Skerike Golfklubb vellinum í Svíþjóð, og mótið það áttunda á tímabilinu hjá Ragnhildi. Hún hefur leikið frábært golf undanfarnar vikur, en hún hafnaði m.a. í 2. sæti á Swedish Strokeplay Championship mótinu í síðustu viku. Með því jafnaði hún besta árangur íslensks kylfings á mótaröðinni, en er nú sú eina sem hefur sigrað. Fyrir mótið sat hún í 13. sæti stigalistans, en mun koma sér enn ofar með árangrinum.

Ragga lék best allra kylfinga á fyrsta keppnisdegi. Hún lauk leik á 65 höggum, sjö undir pari vallarins. Eftir tvo fugla og einn skolla á fyrri níu holunum setti Ragga í fluggír. Hún fékk fimm fugla, örn og einn skolla á seinni níu holunum, sem hún lék sex undir pari. Hún púttaði tíu sinnum á seinni níu, sem bendir til þess að pútterinn hafi verið ansi heitur.

Fyrri hringur Röggu

Í viðtali við LET Access sagði Ragga að hringurinn hafi reynst henni mjög þægilegur. Hún hafi verið að koma sér á góðan stað af teig og nokkur góð pútt hafi dottið. Hún kom einnig inná það sjálfstraust sem árangurinn í síðustu viku hafði gefið sér, og mikilvægi þess að líða vel á flötunum.

Annan hringinn lék Ragga á tveimur undir pari. Hún hóf leik á 10. holu og fór fremur hægt af stað, með þrjá skolla á fyrstu fimm holum sínum. Vindurinn var töluvert meiri í dag og tók nokkrar holur að aðlagast. Seinni hluta hringins lék Ragga frábærlega og fékk m.a. þrjá fugla á síðustu fjórum holum sínum. Hún situr því í 2. sæti mótsins fyrir lokahringinn, tveimur höggum á eftir hinni dönsku Amalie Leth-Nissen.

Annar hringur Röggu

Þriðja hringinn lék Ragga á 73 höggum, einum yfir pari. Eftir tvo fugla á fyrstu holunum kom tvöfaldur skolli á sjöundu holu. 35 högg á fyrri níu holunum dugðu til að vinna upp forystu Amalie Leth-Nissen, sem leiddi mótið fyrir hringinn. Ekkert mátti skilja þær stöllur að á seinni níu holunum, og voru þær jafnar að sautján holum liðnum. Á átjándu holunni fékk Ragga par, á meðan Amalie fékk skolla. Stáltaugar á síðustu holunni sigldu sigrinum heim, og Ragnhildur brýtur blað í sögu golfs á Íslandi.

Þriðji hringur Röggu

Andrea Bergsdóttir var einnig á meðal keppenda í mótinu. Hún lék hringi sína á 71-74-74 og hafnaði í 30. sæti mótsins. Andrea hefur leikið frábærlega á tímabilinu og var í 10. sæti stigalistans fyrir mótið.

Báðar eru þær því í baráttunni um sæti í LET mótaröðinni, en efstu sjö kylfingarnir á LET Access stigalistanum í lok tímabils fá fullan þátttökurétt á LET.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ