Evrópumót kvenna, karla, stúlkna – og pilta hefjast þriðjudaginn 8. júlí. Ísland er með lið í öllum fjórum mótunum.
Hér má fylgjast með stöðu mótsins:
Evrópumót stúlkna fer fram í Englandi og leikur stúlknaliðið í efstu deild. Átján sterkustu sveitir Evrópu mætast á Slaley Hall vellinum í Englandi.
Fyrirkomulag mótsins er tveggja daga höggleikur og þriggja daga holukeppni. Leikinn er 36 holu höggleikur fyrstu tvo keppnisdagana. Efstu átta lið hans leika um Evrópumeistaratitilinn. Fimm af sex bestu skorunum telja í höggleiknum og því mikilvægt fyrir alla að leika vel. Síðustu þrjá daga mótsins er útsláttarkeppni, þar sem leiknir eru tveir leikir í fjórmenning fyrir hádegi og fimm í tvímenning eftir hádegi. Lið sem eru ekki að leika til sigurs í mótinu leika einn fjórmenning og fjóra tvímennings leiki.
Liðið lék báða daga höggleiksins á 402 höggum og hafnaði í 17. sæti. Pamela Ósk Hjaltadóttir lék báða hringina best, og endaði á 21. besta skori allra keppenda.
Stúlkurnar eru í C-riðli með þeim velsku og tyrknesku. Fyrsti leikurinn er gegn tyrkneska liðinu í fyrramálið. Elísabet Sunna og Embla Hrönn mynda saman fjórmenningsteymi Íslands, en aðrar í sveitinni leika tvímenning.
Hér má fylgjast með stöðu leiksins:

Stúlknaliðið gerði jafntefli við það tyrkneska í hörkuspennandi leik. Elísabet Sunna og Embla Hrönn sigruðu sinn leik í fjórmenning, og Bryndís Eva vann á 18. holunni gegn Deniz Sapmaz. Auður Bergrún tryggði jafnteflið með flottri spilamennsku.
Síðasti leikur íslenska liðsins var gegn því velska. Viðureignin reyndist hörkuspennandi frá upphafi. Þegar leið á hringinn voru þær velsku með yfirhöndina, en góður endasprettur hjá íslensku kylfingunum tryggði frábæran sigur í leiknum, sem og í C-riðlinum.
Mikil spenna var á vellinum, en þrír af leikjunum kláruðust á átjándu holunni.

Íslenska liðið hafnar því í 16. sæti mótsins, og stendur uppi sem sigurvegari C-riðilsins.

Evrópumót stúlkna 8.-12. júlí í Englandi
Smelltu hér fyrir stöðuna hjá stúlkunum:
Sveit Íslands skipa:
Auður Bergrún Snorradóttir, GM
Bryndís Eva Ágústsdóttir, GA
Elísabet Sunna Scheving, GKG
Embla Hrönn Hallsdóttir, GKG
Eva Fanney Matthíasdóttir, GKG
Pamela Ósk Hjaltadóttir, GM
Þjálfari: Guðrún Brá Björgvinsdóttir
Sjúkraþjálfari: Lydia Kearney

Slaley Hall völlurinn var opnaður árið 1999 og hannaður af Neil Coles. Þar er að finna tvo 18 holu velli – Hunting Course og Priestman Course – sem báðir hafa hýst fjölmörg virt mót, þar á meðal á Evrópumótaröðinni. Hunting völlurinn mun hýsa keppnina að þessu sinni.
England, gestgjafarnir í ár, mæta til leiks sem ríkjandi meistarar eftir eftirminnilegan sigur í fyrra.
Við munum fylgjast með gengi okkar kylfinga á öllum helstu miðlum GSÍ, fylgist með.
