GSÍ fjölskyldan
/

Deildu:

Auglýsing

Evrópumót kvenna, karla, stúlkna – og pilta hefjast þriðjudaginn 8. júlí. Ísland er með lið í öllum fjórum mótunum.

Hér má fylgjast með stöðu mótsins

Evrópumót kvenna fer fram í Frakklandi og leikur kvennaliðið í efstu deild. Tuttugu sterkustu sveitir Evrópu mætast á Golf de Chantilly vellinum í Frakklandi.

Fyrirkomulag mótsins er tveggja daga höggleikur og þriggja daga holukeppni. Leikinn er 36 holu höggleikur fyrstu tvo keppnisdagana. Efstu átta lið hans leika um Evrópumeistaratitilinn. Fimm af sex bestu skorunum telja í höggleiknum og því mikilvægt fyrir alla að leika vel. Síðustu þrjá daga mótsins er útsláttarkeppni, þar sem leiknir eru tveir leikir í fjórmenning fyrir hádegi og fimm í tvímenning eftir hádegi. Lið sem eru ekki að leika til sigurs í mótinu leika einn fjórmenning og fjóra tvímennings leiki.

Eftir fyrsta keppnisdag er kvennaliðið í 15. sæti, á 23 höggum yfir pari. Fimm bestu skorin af sex telja, og mátti ekki mikið skilja þær að í skori á fyrsta hring. 

Perla Sól Sigurbrandsdóttir lék best allra í íslenska liðinu, en hún kom í hús á 73 höggum. Hulda Clara Gestsdóttir var höggi verri, á 74.

Völlurinn hefur reynst erfiður í mótinu, en ekkert lið lauk leik undir pari á fyrsta keppnisdegi. Lið Spánar lék best, á einum yfir pari í heildina. 

Efstu átta liðin fara í átta liða úrslit og leika um Evrópumeistaratitilinn. Liðin í sætum 9-16 leika um 9. sætið, og liðin fyrir neðan það leika um 17. sætið. Það verður því mikilvægt fyrir stelpurnar okkar að halda sér í efstu 16 sætunum, og reyna að koma sér í efstu 8 sætin. 

 

Spilamennska seinni hringins var svo gott sem sú sama og á þeim fyrri. Þrátt fyrir að fleiri fuglar og skollar hafi verið á skorkortunum var heildarskor liðsins einungis einu höggi hærra á seinni hringnum.

Hulda Clara Gestsdóttir lék best allra í íslenska hópnum, en hún lauk leik á 71 höggi í dag. Perla Sól og Heiðrún Anna léku einnig vel og spiluðu á 74 höggum.

Íslenska liðið hélt sér í 15. sætinu og verður því í B-riðli útsláttarkeppninnar. Þar geta þær best endað í 9. sæti mótsins. Í fyrsta leik mæta þær belgíska liðinu, sem hafnaði í 10. sæti höggleiksins. Andrea Ýr og Elsa Maren mynda saman íslenska fjórmenningsteymið, á meðan aðrar í liðinu leika tvímenning.

Hér má fylgjast með stöðu leiksins

Uppfært 11. júlí

Íslenska liðið tapaði 3.5-1.5 gegn liði Belga. Perla Sól gerði jafntefli í sínum leik og Hulda Clara sigraði sinn leik eftir góða spilamennsku. Minnstu mátti muna að leikurinn yrði jafn, en Eva Kristinsdóttir tapaði sínum leik í bráðabana. 

 

Næsti leikur liðsins er á móti kraftmiklu liði Austurríkis. Heiðrún Anna og Eva Kristinsdóttir mynda saman fjórmenningsteymi íslenska liðsins. Með sigri leikur íslenska liðið um 13. sæti mótsins, og mætir þar Portúgal eða Tékklandi. 

 

Uppfært 12. júlí 

Íslenska liðið fór létt með það Austurríska. Leiknum lauk með 4-1 sigri Íslands. Frænkuliðið, sem samanstendur af Heiðrúnu Önnu og Evu Kristinsdóttur, setti tóninn með yfirburðasigri í fjórmenning, 7/6. Hulda Clara sigraði sinn leik einnig stórt, gegn hinni öflugu Johanna Ebner. Því var ljóst að Ísland myndi leika um 13. sætið í mótinu. Þar beið Portúgal.

 

Leikurinn byrjaði vel fyrir íslenska liðið, en Nicole Sardinha lagði ekki í Perlu Sól, og gaf leik sinn.

Frænkuliðið, Heiðrún og Eva, héldu áfram frábærri spilamennsku og sigruðu sinn leik stórt. Eftir töp í fyrstu tveimur tvímenningsleikjunum voru öll augu á Huldu Clöru og Francisca da Costa. Leikur þeirra var jafn svo gott sem frá fyrstu holu. Þegar tvær holur voru eftir var sú portúgalska eina holu upp, og Hulda þurfti því að vinna aðra af síðustu holunum. 

Ekki nóg með að hafa sigrað 17. holuna, þá sigraði Hulda þá 18. líka, sigraði leikinn 1/0 og tryggði Íslandi 13. sætið! Öflugir sigrar hjá íslenska liðinu í útsláttarhluta mótsins. 

Íslensku liðin í æfingabúðum fyrir EM

 

Evrópumót kvenna 8.-12. júlí í Frakklandi

Smelltu hér fyrir stöðuna hjá konunum:

Nánar um mótið hér:

Sveit Íslands skipa:

Andrea Ýr Ásmundsdóttir, GA
Elsa Maren Steinarsdóttir, GR
Eva Kristinsdóttir, GM
Heiðrún Anna Hlynsdóttir, GOS
Hulda Clara Gestsdóttir, GKG
Perla Sól Sigurbrandsdóttir, GKG

Þjálfari: Þorsteinn Hallgrímsson
Sjúkraþjálfari: Árný Lilja Árnadóttir

Perla og Eva við opnun mótsins

 

Golf de Chantilly var stofnaður árið 1909. Keppt verður á Vineuil vellinum, sem er aðalkeppnisvöllur klúbbsins. Upphaflega var völlurinn hannaður af John Henry Taylor, en síðar endurhannaður af Tom Simpson og Donald Steel. Völlurinn liggur í skógi vöxnu svæði í Hauts-de-France héraðinu, um 50 kílómetrum norður af París.

Þýskaland mætir til leiks sem ríkjandi meistari eftir sigur í mótinu árið 2024, sem fram fór á Real Sociedad Hípica Española Club de Campo vellinum á Spáni. 

Við munum fylgjast með gengi okkar kylfinga á öllum helstu miðlum GSÍ, fylgist með.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ