GSÍ fjölskyldan
/

Deildu:

Auglýsing

Gunnlaugur Árni Sveinsson, kylfingur úr GKG, lék í gær í lokaúrtökumóti fyrir U.S. Open sem fram fór á Bent Tree Country Club í Dallas. Í mótinu kepptu 86 kylfingar um sjö laus sæti á U.S. Open risamótinu sem haldið verður á Oakmont Country Club í Pennsylvaníu dagana 12.-15. júní.

Fyrirkomulag mótsins var 36 holu höggleikur.

Gunnlaugur hóf leik á 10. holu og var frábær allan fyrri hringinn. Hann var á meðal efstu manna allt frá því hann fór af stað og styrkti stöðu sína þegar leið á. Eftir tólf holur var hann fjóra undir pari og sat þá í öðru sæti mótsins. Þar á eftir fékk hann sex pör í röð, en bætti svo við sínum fimmta fugli á 18. holunni. Öflugur hringur sem kom Gunnlaugi í góða baráttu um sætið mikilvæga.

Fyrri hringur Gunnlaugs

Síðari 18 holurnar reyndust erfiðari, og lék Gunnlaugur þær á 73 höggum, tveimur yfir pari. Hann endaði mótið jafn í 33. sæti og var fjórum höggum frá sæti í risamótinu.

Seinni hringurinn

Þrátt fyrir að hafa ekki náð að tryggja sér sæti á U.S. Open sýndi Gunnlaugur enn og aftur hvað hann er öflugur kylfingur. Fyrir neðan hann í mótinu voru margfaldir PGA meistarar og atvinnumenn úr öllum helstu mótaröðum heims. Mikill áhugi var á gengi Gunnlaugs og verður gaman að fylgjast með komandi áföngum hans í golfinu.

Næsta verkefni hjá Gunnlaugi er Arnold Palmer Cup í Suður-Karólínu. Þar var hann valinn í Alþjóðalið sem keppir gegn bestu háskólakylfingum Bandaríkjanna.

Nick Carlson, kylfingur GM, lék einnig í úrtökumóti fyrir U.S. Open í dag en náði ekki að komast alla leið. Hann endaði í 48. sæti á sams konar úrtökumóti, sem fór fram í Englandi.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ