Gunnlaugur Árni Sveinsson lauk leik í 4. sæti í NCAA svæðismóti (Regionals) í Virginíu í dag. Gunnlaugur Árni lék hringina þrjá á 72-68-66 höggum eða fjórum höggum undir pari. Mikil rigning hafði áhrif á mótið en það þurfti oft að stoppa leik yfir keppnisdagana fjóra.
Smelltu hér fyrir úrslit í einstaklingskeppninni:
Þrettán af bestu skólunum í háskólagolfinu kepptu um fimm sæti í landskeppninni sem fer fram í næstu viku. Skólinn hans Gunnlaugs Árna, LSU, var sá skóli sem hafði leikið best yfir allt tímabilið en því miður náði skólinn ekki að enda á meðal fimm efstu og er tímabilinu því lokið hjá LSU.
Smelltu hér fyrir úrslit í liðakeppninni:
Gunnlaugur var þó einnig í harðri baráttu um að vinna sér inn sæti í landskeppninni sem einstaklingur út frá góðum árangri í mótinu. Sá kylfingur sem endar í efsta sæti í mótinu vinnur sér inn sæti í landskeppninni eftir að það er búið að undanskilja þá kylfinga sem komust áfram með sínum skólum.
Gunnlaugur var þremur höggum á eftir þegar sex holur voru eftir af hringnum. Hann fékk þá þrjá fugla í röð og lék síðustu sex holurnar á samtals þremur höggum undir pari. Eftir að hann lauk leik var hann á tímabili í efsta sæti en endaði að lokum einu höggi á eftir Finnanum Sakke Siltala. Stórkostlegu tímabili er því lokið hjá Gunnlaugi Árna eftir mikla spennu.
Næsta mót hans fer fram í Texas mánudaginn 19. maí en þá fer fram lokastig úrtökumótsins fyrir opna bandaríska meistaramótið.