Thomas og Ólafía Þórunn. Mynd: Tristan Jones.
Auglýsing

„Það verður ekkert grín að byrja á Evian vellinum eftir svona langt hlé. Þetta er virkilega erfiður og krefjandi keppnisvöllur. Ég er samt sem áður mjög spennt að byrja aftur. Venjulega er ég ekki stressuð að fara í mót en eftirvæntingin er meiri núna en vanalega og smá fiðringur til staðar,“ segir Ólafía Þórunn Kristinsdóttir sem keppir á sínu fyrsta móti eftir langt hlé dagana 19.-21. maí á LET Evrópumótaröðinni í Frakklandi. 

Nánar hér um Jabra Ladies Open á Evian vellinum:

„Ég veit ekkert hvar ég stend í samanburði við aðra keppendur í keppnisgolfinu eftir svona langt hlé – en ég hef æft eins og vel og ég get og undirbúið mig vel,“ bætir Ólafía við en hún er búsett í Þýskalandi ásamt eiginmanninu Thom­as Bojanowsk. Þau eignuðust soninn Maron þann 29. júní í fyrra og á næstu mánuðum ætlar Ólafía Þórunn að stíga inn á keppnissviðið á ný eftir töluvert hlé á keppnisgolfinu. 

„Á ákvað að bíða aðeins með að reyna mig á ný í Bandaríkjunum – þar sem að ég er með mjög takmarkað aðgengi að mótum á LPGA. Ég ætla því að taka mótin sem eru í boði hér í Evrópu. Ég er með takmarkaðan keppnisrétt á LET Evrópumótaröðinni frá þeim tíma þegar ég var að keppa á þeirri mótaröð. Staðsetning okkar hér í Þýskalandi gerir það einfaldara að geta keyrt á mörg mótin. Ég vonast til þess að komast í sem flest mót og nýta tækifærin sem gefast sem best. Það eru bara nokkrir dagar liðnir frá því ég fékk staðfest að ég er á keppendalistanum í Frakklandi. Ég á von á því að fá einnig tækifæri á mótinu í Belgíu sem fram fer 27.-29. Maí.  

Jabra Ladies Open fer fram á Evian vellinum í Frakklandi dagana 19.-21. maí 2022 og þar verður Guðrún Brá Björgvinsdóttir einnig á meðal keppenda. 

Ólafía Þórunn segir að hún hafi  keyrt til Kölnar á undanförnum vikum til að komast í bestu aðstæður til að æfa stutta spilið, pútt, vipp, pitch – og högg úr sandglompu. 

„Ég hef farið til Kölnar einu sinni í viku en aðra daga æfi ég á velli þar sem við búum í Þýskalandi. Ég er ekki nema í 5 mínútur að keyra þann völl. Þar reyni ég að spila 10 holur eins oft og hægt er. Völlurinn er frekar erfiður að ganga, mikið af brekkum og slíku, og það hefur hjálpað mér að koma mér í enn betra ástand. Ég nýti fyrri part dagsins eins vel og hægt er til að æfa. Á meðan er Maron strákurinn okkar  í góðum höndum hjá ömmu sinni hér í Þýskalandi. Maron sefur talsvert mikið og lengi á þessum tíma dags á meðan mamman fer í vinnuna á golfvellinum.“

Ólafía Þórunn bætir því við að það sé margt öðruvísi í leik hennar eftir að hún eignaðist soninn. „Tilfinning að slá golfbolta núna miðað við áður er stundum skrítin. Ég slæ mun styttra en ég var vön að gera. Það hefur hinsvegar gengið bara nokkuð vel á spila og aðlagast breytingunum. Hreyfingarnar í sveiflunni eru enn til staðar – og þetta er eins og að fara að hjóla á ný eftir langt hlé. Ég kann enn að sveifla en ég þarf að þjálfa upp „tilfinninguna“ fyrir höggunum,“ segir Ólafía Þórunn Kristinsdóttir atvinnukylfingur í golfi.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ