Auglýsing

Keppendalistinn fyrir Íslandsmótið í golfi 2023 hefur verið birtur – nánar hér.

Alls verða 150 keppendur í mótinu, sem fram fer á Urriðavelli hjá Golfklúbbnum Oddi dagana 10.-13. ágúst, og hafa 146 fengið keppnisrétt.

Keppt verður um fjögur sæti í undankeppni sem fram fer mánudaginn 7. ágúst 2023 – nánar hér.

Gríðarlegur áhugi var hjá kylfingum að komast inn á keppendalista Íslandsmótsins. Alls skráðu sig 200 til leiks en hámarksfjöldi keppenda er 150 eins og áður segir.

Alls verða 103 karlar og 47 konur á keppendalistanum eftir að undankeppninni er lokið. Aldrei áður hafa jafnmargar konur tekið þátt á Íslandsmótinu í golfi – en fyrra metið var 44 konur frá því í fyrra þegar Íslandsmótið fór fram í Vestmannaeyjum.

Nánar um þátttökurétt á Íslandsmótinu 2023 – hér.

Á keppendalistanum eru flestir af bestu kylfingum landsins, atvinnu – og áhugakylfingar.

Í kvennaflokki verða allir bestu kylfingar landsins með. Þar má nefna, Guðrúnu Brá Björgvinsdóttur, GK, sem er þrefaldur Íslandsmeistari og atvinnukylfingur á sterkustu mótaröð Evrópu, LET. Huldu Clöru Gestsdóttur, GKG, Íslandsmeistari 2021, Perlu Sól Sigurbrandsdóttur, GR, sem er ríkjandi Íslandsmeistari í golfi og einnig í holukeppni. Ragnhildi Kristinsdóttur, GR, sem er atvinnukylfingur á næst sterkustu atvinnumótaröð Evrópu. Andreu Bergsdóttur, sem er í íslenska landsliðinu en hefur ekki keppt á Íslandsmóti frá því á Akureyri árið 2016.

Í karlaflokki er keppendalistinn einnig mjög sterkur og hæsta forgjöf þeirra sem nú þegar eru komnir inn á keppendalistann er 2,5.

Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GKG, sem leikur sem atvinnukylfingur á DP World Tour, sterkustu atvinnumótaröð Evrópu, er á meðal keppenda. Hann varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn árið 2019. Kristján Þór Einarsson, GM, ríkjandi Íslandsmeistari verður með ásamt fjölda annarra kylfingar í fremstur röð afreksgolfsins á Íslandi. Má þar nefna Aron Snæ Júlíusson, GKG, sem sigraði á Íslandsmótinu á Akureyri árið 2021 og á Íslandsmótinu í holukeppni í júlí 2023. Fyrrum Íslandsmeistarar í golfi sem standast forgjafarmörk Íslandsmótsins eru ávallt með keppnisrétt. Sigmundur Einar Másson, GKG, sem sigraði á Íslandsmótinu árið 2006 þegar það fór fram í fyrsta sinn á Urriðvelli er á meðal keppenda. Úlfar Jónsson, sexfaldur Íslandsmeistari í golfi, er einnig skráður til leiks.

Nýkrýndir Íslandsmeistarar í golfi 50 ára og eldri eru einnig á keppendalistanum, Jón Karlsson, GR, og Þórdís Geirsdóttir, GK, sem sigraði á Íslandsmótinu í golfið árið 1987.

Þessi frétt verður uppfærð.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ