/

Deildu:

Hörður Geirsson, alþjóðadómari.
Auglýsing

Íslendingar verða í stórum hlutverkum á Opna breska meistaramótinu sem fram fer á Carnoustie 19.-22. júlí n.k. Hörður Geirsson, alþjóðlegur golfdómari, verður við störf í sínu fagi á þessu risamóti en hann hefur einu sinni áður verið í hlutverki dómara á þessu risamóti. Haraldur Franklín Magnús, atvinnukylfingur úr GR, verður á meðal keppenda en hann er fyrsti íslenski karlkylfingurinn sem nær að komast inn á eitt af risamótunum fjórum.

Hörður er spenntur fyrir verkefninu og þá sérstaklega þar sem að Haraldur Franklín verður á meðal keppenda.

Þú ert búinn að fara einu sinni áður, hvernig kom þetta til að þessu sinni og hvert verður hlutverk þitt í grófum dráttum.

„Já, mér var boðið að dæma á The Open í hitteðfyrra á Royal Troon. Í nóvember í fyrra var ég svo tilnefndur sem annar fulltrúa EGA í reglunefnd R&A. Auk þess að sinna hefðbundnum nefndarstörfum er það ein af ánægjulegustu „kvöðum“ sem fylgja því að vera í reglunefndinni að mælst er til þess að nefndarmenn sinni dómgæslu á The Open.

Í mótinu fylgja einn til tveir dómarar hverjum ráshópi. Kvöldið fyrir hvern leikdag fær maður tölvupóst með niðurröðun næsta dags og þá sér maður með hvaða ráshópi maður verður. Verkefnið snýst svo um að ganga með þeim ráshópi og vera tilbúinn að aðstoða. Hvenær sem er getur maður svo kallað eftir aðstoð í gegnum talstöðina, hvort sem er með því að fá annan dómara á staðinn eða beðið um að reynt sé að skoða sjónvarpsupptöku af einhverju sem hefur gerst. Að hringnum loknum þarf maður svo að skila af sér stuttri skýrslu um hringinn og þá úrskurði sem maður þurfti að kveða upp.“

Miðað við reynsluna sem þú fékkst síðast – má búast við því að þú hafir í nógu að snúast að leiðbeina bestu kylfingum heims í regluverki golfsins?

„Já, eigum við ekki að vonast til að það verði hæfilega mikið að gera? Þar sem dómarar fylgja hverjum ráshópi leita leikmennirnir yfirleitt alltaf aðstoðar dómara þegar þeir taka lausn, því dómarinn er jú á staðnum. Oftast eru þetta tiltölulega einföld mál en við golfdómarar þekkjum að flóknu málin geta hellst yfir okkur hvenær sem er. Það þægilega við að dæma í þessu móti er að dagsverkið er stutt því maður fylgir bara einum ráshópi á dag og er svo búinn.“

Carnoustie – hefur þú komið þangað áður?

„Nei, þótt skömm sé frá að segja. Það er ætlast til að dómararnir séu komnir á staðinn á þriðjudegi og þá gefast tveir dagar til að ganga völlinn og setja sig inn í aðstæður. Fyrst og fremst þarf maður að átta sig á staðarreglunum sem eru svolítið skrautlegar vegna girðinga, áhorfendastúka, myndavéla og þess háttar og reyna að gera sér grein fyrir þeim vandamálum sem leikmennirnir geta lent í. Ég þarf bara að nýta þessa daga vel.“

Að hafa íslsenskan kylfing í keppendahópnum, það hlýtur að vera skemmtilegt fyrir ykkur báða.

„Allavega fyrir mig! Það er auðvitað stórkostlegt að við skulum eiga fulltrúa í mótinu og ég vona að hann nái að njóta þess í botn að spila í þessu umhverfi. Hann hefur unnið fyrir því. Ég reikna nú ekki með að vera settur dómari fyrir ráshópana sem Haraldur verður í en vonandi gefst mér tækifæri til að fylgjast eitthvað með honum spila,“ segir Hörður Geirsson

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ