Auglýsing

Þrjú stærstu fagsamtök golfvallahönnuða komu saman í Reykjavík í liðinni viku og skrifuðu þar undir sameiginlega yfirlýsingu um viðbrögð við loftslagsvánni. Tilefnið var árleg ráðstefna Evrópusamtaka golfvallahönnuða, EIGCA, sem fór fram á Grand hóteli miðvikudaginn 29. júní sl. og snerist í fyrsta sinn alfarið um loftslagsmál, að hluta til fyrir tilstilli íslenska rannsóknarverkefnisins Carbon Par, sem eini íslenski EIGCA-félaginn, Edwin Roald, stendur fyrir í samstarfi við Golfsamband Íslands og Landbúnaðarháskóla Íslands.

Hulda Bjarnadóttir, forseti GSÍ, bauð rúmlega eitt hundrað fundargesti velkomna í opnunarávarpi sínu og fór þar yfir yfirstandandi vinnu sambandsins og golfhreyfingarinnar í þágu loftslagsaðgerða og heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna, auk þess að ítreka mikilvægi þess að golfhreyfingin styrki enn frekar og sýni fram á ótvírætt framlag sitt til umhverfis okkar og samfélags.

Hulda Bjarnadóttir, forseti GSÍ.

Í erindi sínu sagði Hulda meðal annars: „Þó daglegur rekstur GSÍ einskorðist við atriði á borð við forgjafarmál, mótahald o.fl., þá gerum við okkur grein fyrir því að við þurfum að huga betur að sjálfbærni, ekki aðeins svo að golf eigi sem bjartasta framtíð fyrir sér, heldur einnig og ekki síður til að auka getu golfleiksins og golfhreyfingarinnar sem hreyfiafls til góðra verka í þágu umhverfis okkar og samfélags.“

Hulda kynnti einnig fjarávarp frá Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, sem kvaðst þar fagna innilega áhugaverðu frumkvæði EIGCA, sem og Carbon Par við rannsóknir á kolefnisstöðu allra golfvalla á Íslandi.

Edwin Roald fór frekar yfir Carbon Par-verkefnið og þróun aðferða til að meta bindingu kolefnis og losun frá framræstu votlendi á íslenskum golfvöllum. Einnig var farið yfir losun frá framkvæmdum við vellina og starfsemi þeirra og rætt um leiðir til að draga úr henni. Hápunkturinn var síðan undirritun fyrrnefndrar yfirlýsingar, sem undirrituð var af forsetum þriggja stærstu fagsamtaka golfvallahönnuða í heiminum. Þau eru: European Institute of Golf Course Architects, EIGCA, American Society of Golf Course Architects, ASGCA, og The Society of Australian Golf Course Architects. Forsetarnir, sem undirrituðu yfirlýsinguna, eru, í sömu röð, Tim Lobb, Jason Straka og Harley Kruse.

Að venju var haldið tveggja daga golfmót samhliða ráðstefnunni, sem fór fram í Brautarholti og á Hvaleyrarvelli. Mikil ánægja var með vellina meðal fundargesta, sem komu frá öllum heimshornum og ekki aðeins úr fagsamtökum golfvallahönnuða, heldur voru þar einnig fulltrúar frá ýmsum framleiðendum á efni og búnaði til golfvalla, R&A í St. Andrews o.fl.

Útlit er fyrir að Ísland hafi tekið forystuhlutverk meðal golfþjóða hvað varðar loftslagsmál, með Carbon Par-verkefninu og tilheyrandi skipulagningu á ráðstefnunni, þar sem tekið var ákveðið framfaraskref af hálfu hóps sem hefur hvað mest að segja um mótun golfvalla og þar með golfleiksins til framtíðar.

Hér eru viðtöl við Arlette Anderson sjálfbærnistjóra R&A í Skotlandi og Tim Lobb, forseta EIGCA.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ