Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, atvinnukylfingur úr Golfklúbbi Reykjavíkur, hefur leik á morgun á sínu fyrsta móti á keppnistímabilinu. Ólafía mun leika á Terre Blanche mótinu sem fram fer í Frakklandi og er mótið hluti af næst sterkustu mótaröð Evrópu, LET Access mótaröðinni. Ólafía er með keppnisrétt á LET European mótaröðinni sem er sú sterkasta í Evrópu en hún mun leika á sínu fyrsta móti á þeirri mótaröð í Marokkó í byrjun maí.
Ólafía lék á 15 mótum á LET Access mótaröðinni í fyrra á sínu fyrsta tímabili sem atvinnukylfingur. Hún endaði í 14. sæti á stigalistanum og náði góðum árangri á mörgum mótum.
Ólafía tryggði sér keppnisrétt á LET European mótaröðinni á úrtökumótinu sem fram fór í Marokkó í desember s.l. Hún er þriðji íslenski kylfingurinn sem nær inn á sterkustu mótaröð Evrópu.
Ólöf María Jónsdóttir var sú fyrsta og Birgir Leifur Hafþórsson er eini karlkylfingurinn sem hefur náð að tryggja sér keppnisrétt á meðal þeirra bestu í Evrópu.
Valdís Þóra Jónsdóttir, úr Leyni á Akranesi, er ekki á meðal keppenda á þessu móti en hún er með keppnisrétt á LET Access mótaröðinni. Valdís fór í aðgerð á þumalfingri í vetur og er hún enn að jafna sig eftir þá aðgerð.
Ólafía skrifar eftirfarandi á fésbókarsíðu sína:
[quote_box_center]Mætt til Nice, Frakklands! “Magnifique” Fyrsta LETAS mótið á árinu byrjar hér 31.mars. Æfði vel í dag og svo tveir æfingahringir næstu daga. Er að koma líkamanum í lag eftir heljarinnar ferðalag frá USA og tímamun. Terre Blanche er örugglega einn flottasti golfvöllur sem ég hef komið á, það verður gaman að fá að spila hérna.[/quote_box_center]