Sigmundur Ófeigsson formaður GA hóf golfferilinn sem aðstoðarmaður hjá syni sínum og byrjaði sjálfur seint í golfi. Mynd/seth@golf.is
Auglýsing
– Sigmundur Ófeigsson formaður Golfklúbbs Akureyrar

„Það ríkir mikil tilhlökkun hjá okkur félagsmönnum í Golfklúbbi Akureyrar að taka á móti bestu kylfingum landsins á Íslandsmótinu í golfi 2016,“ segir Sigmundur Ófeigsson formaður GA í viðtali við Golf á Íslandi en 16 ár eru liðin frá því að Íslandsmótið fór fram síðast á Jaðarsvelli.
„Við erum spennt en höfum ekki áhyggjur af framkvæmdinni þar sem starfsfólk GA er gríðarlega öflugt. Ágúst Jensson framkvæmdastjóri hefur gert þetta áður hjá GR og við erum með stóran og öflugan hóp félagsmanna sem ætlar að láta þetta allt saman ganga upp.“

Sigmundur er á fimmta ári sínu sem formaður GA en það var sonur hans, Stefán Einar, sem kom föður sínum í golfíþróttina. „Þegar Stefán var sex ára gamall þá ákvað hann að golfið væri málið og ég fór að aðstoða hann við að ýta kerrunni á ýmsum golfmótum. Eftir að hafa verið í því hlutverki í nokkur ár sagði ég við sjálfan mig að ég þyrfti að fara byrja í golfi sjálfur eða hætta að vera kaddý. Ég valdi golfið og sé ekki eftir því. Ég verð nú seint sagður góður í þessari frábæru íþrótt en ég hef gaman af því að spila.“

Sigmundur Ófeigsson formaður GA hóf golfferilinn sem aðstoðarmaður hjá syni sínum og byrjaði sjálfur seint í golfi. Mynd/seth@golf.is
Sigmundur Ófeigsson formaður GA hóf golfferilinn sem aðstoðarmaður hjá syni sínum og byrjaði sjálfur seint í golfi Myndsethgolfis[pull_quote_right]Þegar Halldór Rafnsson fyrrum formaður GA ákvað að gefa ekki kost á sér að nýju var leitað til Sigmundar um að taka embættið að sér.[/pull_quote_right]

„Ég tók vel í þá ósk og það voru mörg verkefni sem þurfti að klára. Uppbyggingarferlið hér á Jaðri fór aðeins úr skorðum í efnahagshruninu og við höfðum skilning á því að sveitarfélagið þyrfti meiri tíma til þess að efna það samkomulag sem gert var á sínum tíma við GA. Við erum á síðustu metrunum í nýframkvæmdunum og þar hefur krafturinn í innra starfi GA komið vel í ljós. Framlag félaga í sjálfboðavinnu og góðvild fyrirtækja er hægt að meta á margar milljónir króna og fyrir það erum við afar þakklát.“

[pull_quote_right]Það ríkir jákvæður andi hjá Golfklúbbi Akureyrar og það leynir sér ekki þegar komið er í nýuppgert og glæsilegt klúbbhús GA. Miklar endurbætur hafa átt sér þar stað og segir Sigmundur að jákvæðni sé rauði þráðurinn í starfi GA.[/pull_quote_right] „Við höfum spurt félagsmenn hvað þeir óski eftir að sé gert, við erum í þjónustuhlutverki. Það er markmiðið að efla enn frekar barna- og unglingastarfið því þar eru framtíðarfélagsmenn okkar og þau eiga eftir að taka við keflinu þegar fram líða stundir.

Við náðum góðum samningi við Akureyrarbæ og breyttum áherslum frá fyrri samningi. Klappir, ný æfingaaðstaða okkar, var í forgangi og par 3 holu æfingavöllurinn var minnkaður úr 9 holum í 6 holur í staðinn. Við erum að mínu mati með frábæra aðstöðu í dag hér á Jaðri og einnig inniaðstöðu í Golfhöllinni okkar niðri í bæ. Í inniaðstöðunni erum við með fullkominn tækjabúnað á borð við TrackMan. Félagsmönnum í GA hefur fjölgað að nýju og eru að nálgast 800. Bætt aðstaða og góður félagsandi er lykillinn að því að kylfingar vilja vera félagsmenn í GA.

Rekstur Golfklúbbs Akureyrar er á góðum stað segir formaðurinn en það er ljóst að skuldir GA munu aukast á þessu ári. „Heildarveltan er um 130 milljónir kr. á ári. Árið 2016 er mikið framkvæmdaár og það verður verkefni næstu ára að vinna úr aukinni skuldsetningu. Þetta er allt saman hóflegt og í jafnvægi.“  

Sigmundur verður á meðal fjölmargra sjálfboðaliða GA á meðan Íslandsmótið fer fram. „Ég verð ekki bara í jakkafötunum að taka í höndina á gestum og gangandi. Ég hef boðið mig fram í ýmis verkefni sem þarf að leysa. Þetta verður skemmtileg vika og ég býð alla hjartanlega velkomna á Jaðarsvöll á meðan Íslandsmótið í golfi 2016 fer fram, það verður vel tekið á móti gestum og gangandi,“ sagði Sigmundur Ófeigsson.

Yngri kylfingar GA eru margir og ansi liprir eins og hinn 10 ára gamli Skúli Ágústsson sem smellhitti þetta upphafshögg á 10. teig. Mynd/seth@golf.is
Yngri kylfingar GA eru margir og ansi liprir eins og hinn 10 ára gamli Skúli Ágústsson sem smellhitti þetta upphafshögg á 10 teig Myndsethgolfis

Deildu:

Auglýsing
 
Auglýsing
 

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ