Golfsamband Íslands birtir í dag mótaskrá sína fyrir sumarið 2015 og má nálgast hana hér.
Eimskipsmótaröðinmótaröð þeirra bestu hefst 23. maí á Hólmsvelli í Leiru . Næst er ferðinni svo heitið til Vestmannaeyja en þar verður leikið dagana 29.-31. maí. Hlíðavöllur kemur nýr inn á mótaröð þeirra bestu en þriðja mót sumarsins verður í umsjá Golfklúbbs Mosfellsbæjar dagana 12.-14. júní. Íslandsmótið í holukeppni hefst 19.-21. júní en það er að þessu sinni leikið á Jaðarsvelli og í umsjá Golfklúbbs Akureyrar. Sjálft Íslandsmótið í golfi hefst svo 23. júlí á Garðavelli Akranesi en síðast var mótið leikið þar árið 2004. Golfklúbburinn Leynir fagnar í ár 50 ára afmæli sínu en klúbburinn var stofnaður 15. mars 1965. Lokamót Eimskipsmótaraðarinnar verður svo leikið á Urriðavelli hjá Golfklúbbnum Oddi dagana 22.-23. ágúst.
Á Íslandsbankamótaröðinni eru sex mót líkt og í fyrra, það fyrsta hefst 23. maí á Garðavelli hjá Golfklúbbnum Leyni. Líkt og í fyrra leikur flokkur 17-18 ára 54 holur en nú verða öll mótin leikin með því fyrirkomulagi að undanskildu Íslandsmótinu í holukeppni, en þetta er gert vegna reglna um heimslista áhugamanna. Keppendur í þessum flokki munu því hefja leik degi fyrr en aðrir keppendur. Áskorendamótaröð Íslandsbanka hefst 23. maí á Kálfatjarnarvelli hjá Golfklúbbi Vatnsleysustrandar.
Mótaskrá GSÍ má nálgast hér.