/

Deildu:

Auglýsing

Í nýjasta tölublaði Golf á íslandi er viðtal við hinn 98 ára gamli Stefán Þorleifsson sem lék á aldri sínum og fór í eftirminnilega golfferð til Tenerife enda hvergi nærri hættur í golfinu.

Stefán Þorleifsson, fyrrum íþróttakennari, er einn af stofnfélögum Golfklúbbs Norðfjarðar og hann nýtir hvert tækifæri til þess að leika golf. Það vakti athygli á dögunum að Stefán lék á aldri sínum, 98 höggum, á Stefánsmóti SÚN, sem haldið er árlega honum til heiðurs á Grænanesvelli. Stefán skellti sér í haust til Tenerife með fjölskyldu sinni þar sem hann lék tvo golfhringi og er það án efa einsdæmi hjá íslenskum kylfingi á þessum aldri.

Golf á Íslandi ræddi við Stefán en hann er hvergi nærri hættur að reyna að bæta leik sinn. Stefán hefur á undanförnum árum sett sér það markmið að leika 18 holur undir aldri: „Skorið var svipað á báðum hringjunum þegar ég lék á 98 höggum. Grænanesvöllur er 9 holur og þetta voru því tveir hringir. Hver einasti golfari er sífellt að reyna að bæta leik sinn og ég er engin undantekning,“ sagði Stefán en það sem heillar hann mest við golfíþróttina er að keppa við sjálfan sig.

„Það sem heillar mig mest við þessa íþrótt er það að maður er alltaf keppa, ekki endilega við aðra kylfinga heldur við sjálfan sig, að reyna sífellt að bæta leik sinn og lækka skorið. Takmark mitt síðustu árin hefur verið að reyna að spila undir aldri mínum, þó svo það hafi ekki alltaf tekist.“

Dásamleg fjölskylduferð

Eins og áður segir fór Stefán í ferðalag í haust þar sem hann lék golf í góðum félagsskap. Hann lýsir upplifuninni og ferðlaginu með eftirfarandi hætti.

„Það er alltaf gaman að koma á nýja velli og glíma við þá. Völlurinn sem við spiluðum á Tenerife var mjög góður og gaman að leika golf á honum enda var félagsskapurinn einstaklega góður og skemmtilegur, en þar spiluðum við saman Gunnar Sólnes (sem á 2 Íslandsmeistaratitla) og Margrét Kristinsdóttir en þau eru tengdaforeldrar Þorleifs sonar míns. Nafni minn, Stefán Grétar Þorleifsson, var einnig með í för. Eftirminnlegast úr þessari ferð, fyrir utan það að vera þarna 18 saman úr fjölskyldunni, var að eiga þess kost að leika golf á erlendri grundu. En það mikilvægasta var að þarna vorum við saman 18 manneskjur úr sömu fjölskyldunni og nutum samverunnar á þessum dásamlega stað.“

Grænanesvöllur er stolt okkar

Golfíþróttin hefur verið í sókn á Austurlandi á undanförnum árum og Stefán er ánægður með þróun mála. Hann byrjaði reyndar á því að leiðrétta blaðamann með vinsamlegri ábendinu að það sé bara eitt „s“ í Neskaupstaður og að hann búí í Neskaupstað en ekki á Neskaupstað. „Ég er sáttur við stöðuna eins og hún er í dag. Stolt okkar er völlurinn, bæði staðsetningin á honum og skipulag hans og ekki síst það hve vel hann hefur verið hirtur á undanförnum árum.  Öll aðstaða á vellinum, bæði æfingaaðstaðan og golfskálinn, eru til fyrirmyndar miðað við stærð golfklúbbsins.“

Rotaðist í golfi en hélt áfram að spila

Að lokum var Stefán inntur eftir góðum ráðum fyrir kylfinga á hans aldri. „Fyrir þá sem ná háum aldri og hafa góða heilsu þá er golfið sérlega góð og skemmtileg íþrótt.“ Hann lét eina góða sögu fylgja með í lokin; en Stefán rotaðist úti á golfvellinum eftir að hafa fengið golfkúlu í höfuðið.

„Ég veit ekki hvort það þykir skemmtilegt að hafa verið rotaður í golfi, en það kom fyrir mig þegar félagi minn hafði tíað kúluna sína upp, ég stóð til hliðar við hann, ekki alveg samkvæmt reglunni, hann hitti kúluna ekki vel, hún fór svo gott sem í þvera stefnu og beint í hausinn á mér og ég steinlá! Þegar ég svo rankaði við mér úr rotinu hélt ég bara áfram að spila og spila enn,“ sagði Stefán Þorleifsson.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ