/

Deildu:

Auglýsing

Axel Bóasson, atvinnukylfingur úr Golfklúbbnum Keili, hefur tryggt sér þátttökurétt á Áskorendamótaröðinni (Challenge Tour). Mótaröðin er næst sterkasta atvinnumótaröð Evrópu en Axel tryggði sér þátttökurétt með því að enda í fimmta sæti á stigalista Nordic Golf League mótaraðarinnar, en fimm efstu sætin tryggja keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni.

Sjáðu stöðuna á stigalistanum hér.

Axel lauk leik í dag á lokamótinu á Nordic Golf League, Road to Europe Final, sem fór fram á Møn golfvellinum í Danmörku. Axel endaði jafn í 19. sæti og var hann samtals á einu höggi undir pari vallar (68-75) og var sex höggum á eftir sigurvegaranum. Lokahringnum var aflýst í dag vegna veðurs. Axel hafði lokið við 8 holur á lokahringnum þegar kylfingar voru kallaðir inn og hafði hann þá unnið sig upp í 10. sæti og var þá einungis fjórum höggum á eftir fyrsta sætinu. 

Sjáðu stöðuna í mótinu hér.

Spennan var gríðarleg í lokamótinu þar sem margir kylfingar áttu möguleika að enda á meðal fimm efstu á stigalistanum. Veðrið spilaði stóra rullu í lokamótinu og Axel segir að það hafi vissulega verið óþægilegt hvað það voru margir óvissuþættir. 

“Veðrið var gott á fyrsta degi og skorið gott samkvæmt því. Á öðrum degi var mjög vont veður og erfitt að spila. Það kom mér smá á óvart hversu gott skorið var miðað við aðstæðurnar. Það var stutt á milli efstu og neðstu kylfinga og því mátti ekkert út af bregða. Í dag var svo enn verra veður en ég var í góðum málum þegar leik var hætt. Undir lokin voru vindhviðurnar orðnar of sterkar, margir boltar að fjúka á flötunum og eina í stöðunni að aflýsa. Það var mikill léttir þegar Challenge Tour kortið var staðfest. Það skipti rosalega miklu máli að tryggja mér annað sætið á næstsíðasta mótinu í síðustu viku. Þá vissi ég að ég þyrfti að enda vel til koma mér í betri stöðu fyrir lokamótið. Ég náði að detta í íslenska flæðið og spila frábært golf í aftakaveðri. Það skilaði mér fimmta sætinu fyrir lokamótið sem var gífurlega mikilvægt.”

Árið 2017 varð Axel fyrsti íslenski kylfingurinn til að tryggja sér stigameistaratitilinn á Nordic Golf League. Þá sigraði hann á tveimur mótum á mótaröðinni og lék árið eftir fullt tímabil á Áskorendamótaröðinni. Axel sigraði á einu móti í ár og hafnaði alls sex sinnum í verðlaunasæti. Axel segist líklega hafa spilað betur árið 2017 en telur sig þó vera á betri stað í dag og reynslunni ríkari. 

“Þegar ég vann mótaröðina átti ég mitt besta tímabil á ferlinum en í dag er þó allt í mínum leik heildstæðara og í meira jafnvægi. Ég hef átt það til að vera svolítið að leita og hræra í mínum leik en núna hef ég náð að treysta betur á ferlið. Birgir Leifur hefur reynst mér afar vel og hjálpað mér mikið. Við höfum ekki hist oft yfir tímabilið en spjöllum reglulega saman. Hann hefur hjálpað mér að halda mér við efnið og kemur reglulega með lausnir sem heldur mér á góðum stað. Ég hlakka til að ræða við hann um ný markmið þegar ég kem heim.”

Axel kemur heim til Íslands á morgun og þá hefst undirbúningur fyrir næsta verkefni. Hann á enn möguleika á að vinna sér inn þátttökurétt á sterkustu atvinnumótaröð Evrópu, sjálfri Evrópumótaröðinni (DP World Tour). Axel tekur þátt á öðru stigi úrtökumótsins fyrir Evrópumótaröðina í byrjun nóvember. Hann keppir á Isla Canela Links vellinum í Huelva þar sem Guðmundur Ágúst Kristjánsson, Bjarki Pétursson og Haraldur Franklín Magnús léku í fyrra. Þá komust Guðmundur og Bjarki áfram á lokastigið. 

“Það verður gott að koma heim í nokkra daga og núllstilla aðeins fyrir úrtökumótið. Frábært að hafa náð þessu markmiði og ég mæti nú til leiks með aðeins minni pressu en á sama tíma fullur sjálfstrausts.”

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ