Golfsamband Íslands

Ragnhildur og Logi Íslandsmeistarar í golfi 2023

Ragnhildur Kristinsdóttir, GR og Logi Sigurðsson, GS. Mynd/seth@golf.is

Íslandsmótinu í golfi lauk í dag á Urriðavelli hjá Golfklúbbnum Oddi.

Ragnhildur Kristinsdóttir, GR og Logi Sigurðsson, GS eru Íslandsmeistarar 2023. Þetta er í fyrsta sinn sem þau fagna þessum titli. 

Úrslitin réðust á lokaholunni í dag í blíðviðrinu á Urriðavelli að viðstöddum fjölmörgum áhorfendum.

Efstu kylfingar í kvenna – og karlaflokki.

1. Ragnhildur Kristinsdóttir, GR 283 högg (70-70-71-71) (-1)
2. -4. Andrea Björg Bergsdóttir, GKG 285 högg (74-71-72-68) (+1)
2.-4. Perla Sól Sigurbrandsdóttir, GR 285 högg (76-69-69-71) (+1)
2.-4. Hulda Clara Gestsdóttir, GKG 285 högg (70-76-67-72) (+1)

Ragnhildur var með tveggja högga forskot fyrir lokahringinn á -2 samtals en Hulda Clara Gestsdóttir, GKG og Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK komu þar á eftir á pari vallar.
Hulda Clara byrjaði gríðarlega vel á lokahringnum og var með þriggja högga forskot á Ragnhildi eftir 11. holur. Hulda Clara tapaði fjórum höggum á síðustu fimm holum lokahringsins á meðan Ragnhildur lék síðustu 9 holur vallarins á einu höggi undir pari vallar. Hulda Clara endaði á 1 höggi yfir pari vallar og var jöfn í 2.-4. sæti. Andrea Björg Bergsdóttir, GKG, lék best allra á lokahringnum eða 68 höggum og lauk hún leik á 1 höggi yfir pari samtals, líkt og Perla Sól Sigurbrandsdóttir, GR, sem hafði titil að verja. Andrea, Hulda Clara og Perla Sól deildu því 2. sætinu á þessu Íslandsmóti.

1. Logi Sigurðsson, GS 273 högg (69-67-71-66) (-11)
2.Hlynur Geir Hjartarson, GOS 274 högg (70-65-68-71) (-10)
3. Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GKG (69-65-76-67) (-7)

Frá vinstri: Hulda Clara Gestsdóttir, Ragnhildur Kristinsdóttir, Perla Sól Sigurbrandsdóttir, Andrea Björg Bergsdóttir. Mynd/seth@golf.is
Frá vinstri: Guðmundur Ágúst Kristjánsson, Logi Sigurðsson, Hlynur Geir Hjartarson. Mynd/seth@golf.is.

Fyrir lokahringinn var Logi fjórum höggum frá efsta sætinu. Hlynur Geir Hjartarson, GOS, var efstur á -10 en Logi var á -6. Þar á eftir voru Aron Emil Gunnarsson, GOS og Birgir Björn Magnússon, GK á -5.

Logi gaf tóninn strax á upphafskafla lokahringsins – en hann fékk þrjá fugla á fyrri 9 holunum og hann bætti við erni á 12. holu og fugli á þeirri 13. og var þá á 12 höggum undir pari. Hlynur Geir fékk fugl á 1. holu lokahringsins og var á -11 á þeim tíma. Hann tapaði höggi á 3., 7., og 10. en vann þau til baka með fuglum á 15. og 16. Logi var með tveggja högga forskot fyrir lokaholuna en það dugði til sigurs þrátt fyrir að hann tapaði fyrsta höggi dagsins á lokaholunni.

Smelltu hér fyrir lokastöðuna á Íslandsmótinu í golfi 2023

Gríðarlegur áhugi var hjá kylfingum að komast inn á keppendalista Íslandsmótsins. Alls skráðu sig 200 til leiks en aðeins 153 komust inn á keppendalistann.

Alls eru 105 karlar og 48 konur á keppendalistanum.

Aldrei áður hafa jafnmargar konur tekið þátt eða 48 – en í fyrra var nýtt met sett þegar 44 konur tóku þátt á Íslandsmótinu í Vestmannaeyjum.

Smelltu hér fyrir rástíma á 4. keppnisdegi:

Smelltu hér fyrir stöðuna á Íslandsmótinu í golfi 2023

Smelltu hér fyrir myndasafn frá mótinu:

3. keppnisdagur: 

Frábærar aðstæður voru á Urriðavelli á þriðja keppnisdeginum þar sem að miklar sviptingar voru á meðal þeirra efstu. 

Hlynur Geir Hjartarson, GOS, er með fjögurra högga forskot á 10 höggum undir pari samtals. Hann hefur leikið hringina þrjá á 70-65-68.  Logi Sigurðsson, GS, er annar á 6 höggum undir pari vallar,  69-67-71. Aron Emil Gunnarsson, GOS, er í þriðja sæti fyrir lokahringinn á -5 líkt og Birgir Björn Magnússon, GK. 

Andri Þór Björnsson, GR, er á -4 samtals en hann var efstur fyrstu tvo keppnisdagana. Fjórir keppendur eru jafnir á -3 í fjórða sæti. 

Í kvennaflokki er Ragnhildur Kristinsdóttir, GR, með tveggja högga forskot á 2 höggum undir pari samtals. Hún hefur leikið á 70-70-71. Hulda Clara Gestsdóttir, GKG, setti nýtt vallarmet á Urriðavelli í dag, 67 högg, og er hún á pari vallar samtals ( 70-76-67). Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK, er einnig á pari vallar ( 73-69-71). Perla Sól Sigurbrandsdóttir, GR, er á +1 samtals í fjórða sæti, (76-69-69).

 

2. keppnisdagur: 

Annar keppnisdagur á Íslandsmótinu í golfi 2023 var spennandi. Veðrið lék við keppendur og aðstæður á Urriðavelli voru eins og best verður á kosið. Vallarmetið af öftustu teigum var bætt og frábær skor litu dagsins ljós hjá mörgum keppendum. 

Í karlaflokki er Andri Þór Björnsson í efsta sæti líkt og eftir fyrsta keppnisdaginn. GR-ingurinn lék á 66 höggum í dag og er á 9 höggum undir pari vallar samtals. Andri Þór lék á 67 höggum í gær og hann hefur aðeins tapað einu höggi á 36 holum.  

Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GKG, bætti vallarmetið í dag þegar hann lék á 65 höggum eða 6 höggum undir pari vallar. Guðmundur Ágúst fékk alls sex fugla í dag og tapaði ekki höggi.  Hann er samtals á 8 höggum undir pari. 

Hlynur Geir Hjartarson, GOS, jafnaði vallarmetið hjá Guðmundi Ágústi aðeins nokkrum mínútum síðar – en Hlynur Geir fékk sex fugla í dag og tapaði ekki höggi. 

Logi Sigurðsson, GS, lék á 67 höggum í dag og er samtals á -6 í fjórða sæti. Þegar þetta er skrifað er keppni ekki lokið í karlaflokki en búast má við að rúmlega 60 keppendur komist í gegnum niðurskurðinn en niðurskurðarlínan miðast við 13 högg yfir pari samtals eða betra skori.  

Í kvennaflokki er Ragnhildur Kristinsdóttir, GR, efst á 2 höggum undir pari vallar en hún hefur leikið báða hringina á 70 höggum. Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK; er tveimur höggum á eftir á pari vallar (73-69). Guðrún Brá fékk fjóra fugla á síðustu 9 holunum í dag 

Andrea Ýr Ásmundsdóttir, GA, Andrea Bergsdóttir, GKG og Perla Sól Sigurbrandsdóttir, GR, eru jafnar í þriðja sæti á +3 og eru þær fimm höggum á eftir Ragnhildi. 

Alls komust 31 keppendur í gegnum niðurskurðinn í kvennaflokki eða þeir leikmenn sem voru á 23 höggum yfir pari eða betra skori. 

1. keppnisdagur: 

Þrír keppendur úr GR eru í þremur efstu sætunum eftir 1. keppnisdaginn í karlaflokki. Andri Þór Björnsson, GR, er efstur á -4 en hann fékk fimm fugla á fyrri 9 holunum og einn skolla á næstu 9 holum, 67 högg alls,  

Jóhannes Guðmundsson, GR og Hákon Örn Magnússon, GR eru þar á eftir á -3 eða 68 höggum. 

Suðurnesjamennirnir Guðmundur Rúnar Hallgrímsson, GS og Logi Sigurðsson eru á -2 líkt og Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GKG, og Aron Snær Júlíusson, GKG. Guðmundur Ágúst sigraði á Íslandsmótinu 2019 og Aron Snær árið 2021. 

Í kvennaflokki er Ragnhildur Kristinsdóttir, GR, efst á -1 eða 70 höggum. 

Alls eru 15 leikmenn á pari eða betra skori í karlaflokki. Kristján Þór Einarsson, ríkjandi Íslandsmeistari í golfi, lék á +3 á fyrsta hringnum.

Keppendur eru alls 153 og koma þeir frá 18 mismunandi klúbbum víðsvegar af landinu.

Flestir keppendur eru frá GR eða 35 alls og tæp 23% af heildarfjölda keppenda, GKG er með 32 keppendur eða 21%, og GM 24 keppendur og tæp 16% af heildarfjölda.

Alls eru 9 golfklúbbar með keppendur í kvenna – og karlaflokki en heildarskiptingin er hér fyrir neðan.

GolfklúbburKonurKarlarSamtals% af heild
Golfklúbbur Reykjavíkur12233522.9%
Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar12203220.9%
Golfklúbbur Mosfellsbæjar12122415.7%
Golfklúbburinn Keilir4121610.5%
Golfklúbbur Akureyrar1785.2%
Golfklúbbur Suðurnesja1785.2%
Golfklúbburinn Oddur2463.9%
Golfklúbbur Selfoss1453.3%
Nesklúbburinn 553.3%
Golfklúbburinn Leynir1232.0%
Golfklúbbur Vestmannaeyja 332.0%
Golfklúbbur Skagafjarðar2 21.3%
Golfklúbbur Borgarness 110.7%
Golfklúbbur Siglufjarðar 110.7%
Golfklúbbur Vatnsleysustrandar 110.7%
Golfklúbburinn Esja 110.7%
Golfklúbburinn Setberg 110.7%
Golfklúbburinn Vestarr 110.7%
https://www.gsimyndir.net/frame/slideshow?key=svhPHj&speed=3&transition=fade&autoStart=1&captions=0&navigation=0&playButton=0&randomize=0&transitionSpeed=2

Exit mobile version