Golfsamband Íslands

Leikhraði og ábyrgð golfklúbba

Kylfingar á ferð: Mynd/Frosti Eiðsson

Páll Sveinsson, formaður Golfklúbbs Selfoss, skrifar:

Nú þegar einungis nokkrir dagar eru í að formlegt sumar hefjist samkvæmt dagatalinu og golfvellir að opna hver af öðrum langar mig að leggja nokkur orð í skjóðu varðand leikhraða á golfvöllum.

Við, íslenskir kylfingar, höfum verið þeirrar gæfu aðnjótandi í miðjum heimsfaraldri að hafa getað leikið og æft sportið okkar golfíþróttina meira og minna þrátt fyrir ýmiskonar samkomubönn, höft og kvaðir sem á heimsbyggðina hafa verið lagðar.

Sprenging varð í ásókn í golfið síðastliðið sumar og allt stefnir í að golfsumarið sem er handan við hornið verði jafnt ásetið og sumarið í fyrra. Þessi sprenging í iðkunarfjölda golfíþróttarinnar er ekkert minna en glæsileg en býr til ákveðinn lúxusvanda sem hefur verið að magnast með auknum iðkendafjölda og vexti íþróttarinnar síðustu ár.

Aðsóknin hefur skapað þann vanda að kylfingum hefur reynst erfitt að fá rástíma á golfvöllum, sérstaklega á golfvöllunum á suð vesturhorni landsins þar sem iðkendafjöldinn er mestur. Þetta vekur okkur annars vegar til umhugsunar um að fjölga þarf golfvöllum í umræddum landshluta og hins vegar hvernig skal stýra allri þeirri umferð sem á völlum landsins dynur.

Leikhraði á golfvöllum hefur verið til umræðu síðustu ár en mörgum hefur þótt mikið um þegar leikhraði átján holu hrings hefur tekið fimm til sex klukkustundir. Hægur leikhraði hefur verið nefndur sem ein helsta orsök brotthvarfs úr íþróttinni og nú í aðdraganda mikils golfsumars vil ég vekja athygli á ábyrgð golfklúbba þegar kemur að þessari heitu kartöflu. Alls kyns lausnir hafa verið nefndar í í því samhengi hvernig væri hægt að auka leikhraða og draga úr óánægju og brotthvarfi, við gætum staðið frammi fyrir því að sú aukning sem hefur orðið á iðkendafjölda dragist saman á ný ef ekkert verður að gert.

Ég hef heyrt hugmyndir eins og þær að takmarka þurfi fjölda og aðgengi háforgjafa kylfinga að golfvöllum. Ég er algjörlega ósammála þeirri hugmyndafræði enda myndi hún vinna þvert á gildi golfíþróttarinnar þar sem jöfnuður er hafður að leiðarljósi. Ég hef leikið golfhringi þar sem ég hef þurft að bíða eftir verulega hægum lágforgafarkylfingum sem hafa undirbúið hvert golfhögg eins og að um sé að ræða síðasta innáhögg í í lokaholli á risamóti á meðan háforgjafarkylfingar leika á leifturhraða, skynsömum hraða.

Að mínu mati er ábyrgð golfklúbba mikil þegar kemur að lausnum á þessum vanda. Ég tel að til að draga úr hægum leikhraða verði að eiga sér stað mun öflugri  fræðsla og eftirfylgd að hálfu klúbbana þegar kemur að þessum galla á gjöf Njarðar. Það er alveg ljóst að klúbbarnir þurfa að miðla upplýsingum mun betur en nú er gert, ekki er til að mynda víst að allir kylfingar kunni að hleypa fram úr eða til hvers er ætlast af kylfingum á golfvöllum og ekki hvað síst – hvað skulu kylfingar ekki gera á golfvöllum. Mikilvægustu atriðin sem þarf að ávarpa í þessu samhengi eru að mínu mati þessi:

<strong>Páll Sveinsson formaður Golfklúbbs Selfoss<strong>

Ég tel mikilvægt að golfklúbbar gefi þessar skrifuðu og óskrifuðu reglur út í upphafi golftímabils og einnig reglulega yfir golftímabilið til að halda kylfingum við efnið. Gott væri að sjá skilti á golfvöllunum þar sem þessar reglur eru tíundaðar, ekki einungis á fyrsta teig heldur víðar á golfvöllunum. Ég tel að ef við vinnum öll saman að því markmiði að flýta leikhraða á völlunum séum við að gera upplifun kylfinga á okkar stórkostlegu íþrótt enn betri og jákvæðari en nú þegar er.

Páll Sveinsson, formaður Golfklúbbs Selfoss.

Exit mobile version