Golfsamband Íslands

Karl Gunnlaugsson hefur leikið alla golfvelli landsins

Viðtal sem birtist í tímaritinu Golf á Íslandi 2016


Karl Gunnlaugsson hefur frá árinu 1985 leikið alla golfvelli landsins og alls hefur hinn 84 ára gamli kylfingur leikið 74 golfvelli á Íslandi. Karl hóf að leika golf árið 1984 þegar hann var 53 ára gamall og frá fyrsta höggi fékk hann mikinn áhuga á golfinu.

Í júní árið 2016 brá Golf á Íslandi sér í heimsókn á Flúðir í blíðskaparveðri. Karl og eiginkona hans, Guðrún Sveinsdóttir, tóku gríðarlega vel á móti gestinum úr Reykjavík. Þar rifjaði Karl upp ýmsar skemmtilegar sögur frá golfferlinum sem virðist vera rétt að byrja.

Karl Gunnlaugsson safnar golfboltum og er með um 1500 merkta golfbolta í röð og reglu í bílskúrnum.

Karl tekur á móti blaðamanni í bílskúrnum sem er einnig merkilegt safn með munum úr golfíþróttinni. Á veggjunum hefur Karl komið fyrir golfboltasafni sínu sem er einstakt en þar er að finna rúmlega 1.500 golfbolta sem eru allir merktir með einhverjum hætti. „Ég byrjaði að safna boltum sem eru með fyrirtækjamerkjum eða einhverju slíku og smátt og smátt varð þetta mikið safn. Ég er enn að leita að slíkum boltum og þykir gaman að finna bolta sem ég á ekki í safninu,“ segir Karl en honum þykir vænt um bolta sem er með merki frá fyrirtæki á Grænlandi. „Það er ekki leikið golf á Grænlandi og mér þykir þetta merkilegur bolti af þeim sökum.“

Brautarholtsvöllurinn var lokaáfanginn á golfhringnum

Frá árinu 1984 hefur Karl náð þeim einstaka áfanga að leika alla golfvelli sem eru til á Íslandi og einnig velli sem hafa verið lagðir niður á þeim tíma. Hann segir að ferðalag á Landsmót UMFÍ árið 1987 hafi markað upphafið á þessari „söfnun“. Karl lokaði golfhringnum um Ísland s.l. haust þegar hann lék Brautarholtsvöll á Kjalarnesi og var það 74. völlurinn sem Karl hefur leikið á hér á Íslandi.

„Þegar ég áttaði mig á því að ég var búinn að spila það marga velli að ég gæti náð að leika þá alla fór ég að gera mér sérstakar ferðir til þess að safna völlum. Ég tók sem dæmi alla vellina á Vestfjörðunum í einni heimsókn þar sem við fórum í ferðalag með tjaldvagn. Það má segja að þetta hafi byrjað árið 1987 þegar ég var á Landsmóti UMFÍ á Húsavík. Þá fórum við hjónin eftir mótið í ferðalag um Norðurlandið og Austfirðina og ég lék á öllum völlum sem þar voru á þeim tíma. Við höfum farið víða, gist í tjaldvagninum, og ég hef safnað völlum á meðan Guðrún hefur fundið sér eitthvað annað að gera því hún hefur ekki haft áhuga á að leika golf,“ segir Karl.

<strong>Karl og Guðrún Sveinsdóttir á golfvelli úti á landi í einni af fjölmörgum ferðum þeirra um Ísland Myndúr einkasafni<strong>

„Ég fór síðan á Landsmót +50 á Húsavík og í þeirri ferð bætti ég við nokkrum völlum sem ég hafði ekki leikið. Þar má nefna Vopnafjörð og Lundsvöll í Vaglaskógi. Ég lék einnig Silfurnesvöll á Hornafirði á ný en sá völlur er virkilega skemmtilegur eftir þær breytingar sem gerðar voru á honum fyrir nokkrum árum.“

Að mati Karls er Brautarholtsvöllur skemmtilegasti 9 holu völlur landsins og þar á eftir kemur Grænanesvöllur á Neskaupstað.

„Völlur á Norðfirði er vel hirtur, skemmtilegur og í frábæru umhverfi. Ég hafði gríðarlega gaman af því að leika Brautarholtsvöllinn og ekki síst þar sem ég fékk oft að pútta af um 40 metra færi. Það eru ekki margir vellir með slíkar flatir.“

Hvassviðrið á Ólafsfirði eftirminnilegt

Eins og áður segir eru vellirnir 74 sem Karl hefur leikið. Hann hefur ekki aðeins leikið velli sem eru innan raða GSÍ.

„Það eru ekki allir á skrá sem ég hef leikið og má þar nefna völl við Búrfellsvirkjun og Sogsvirkjun, í Hraunborgum og Reykholtsdal. Ég náði að leika völlinn á Indriðastöðum í Skorradal áður en honum var lokað. Það leynast víða vellir sem vert er að skoða og leika. Það eina sem ég sé eftir núna er að ég náði ekki í merkta bolta frá þessum völlum og ég skrifaði ekki umsögn um vellina eftir að ég var búinn að leika þá. Það hefði verið gaman að skoða þær sögur núna.“

Veðrið stöðvar ekki Karl þegar kemur að golfíþróttinni og hann leikur nánast í öllum veðrum.

„Það var ekki alltaf gott veður þegar ég var að leika á þessum völlum. Heimsóknin á Skeggjabrekkkuvöll í Ólafsfirði var eftirminnileg. Þar misstum við næstum því tjaldvagninn út á haf, hvassviðrið var gríðarlegt, en ég lék völlinn og ég gleymi ekki þeirri heimsókn. Völlurinn er fínn og ég væri alveg til í að fara þangað aftur í betra veðri.“

Félagsmenn í GF tóku sig til og gáfu klúbbnum glæsileg steina úr stuðlabergi á hverja braut. Karl á 12. holuna og er afar stoltur af þessu verkefni félagsmanna.

Halldór á Efra-Seli kveikti neistann

Karl sló sitt fyrsta golfhögg þegar hann var 53 ára og það var Halldór Guðnason landeigandi Selsvallar á Flúðum sem sá til þess að Karl kynntist þessari frábæru íþrótt.

„Hrafnhildur Eysteinsdóttir og Jónas Ragnarsson tannlæknir hvöttu Halldór til þess að koma upp golfvelli á landi Efra-Sels. Halldór féll alveg fyrir golfinu eftir að þau Hrafnhildur og Jónas höfðu kynnt golfið fyrir honum. Skömmu síðar hafði Halldór gert 6 holu völl á túnunum hjá sér. Þegar ég hitti Halldór í réttum haustið 1984 hvatti hann mig til þess að koma og prófa. Ég var tregur til, var að drepast í bakinu á þessum tíma, en ég lét til leiðast. Það þurfti ekki meira til en nokkur högg. Ég féll alveg fyrir þessari íþrótt. Um vorið 1985 fórum við að spila saman og ég sá það strax að það gengi ekkert að við værum tveir að gutla í þessu. Við söfnuðum því liði, alls 12 manns, héldum fund og stofnuðum Golfklúbbinn Flúðir. Ég var kjörinn formaður og gegndi því embætti í 25 ár en þá ákvað ég að hætta. Það hefur margt breyst, við vorum með litla rútu sem golfskála fyrsta árið, en Halldór og Ásta (Ástríður Guðný Daníelsdóttir) hafa byggt upp glæsilega aðstöðu á Efra-Seli. Þar er nú skemmtilegur völlur og það eru um 250 félagsmenn í klúbbnum. Aðstaðan er góð í skálanum, mikið pláss, gott viðmót og bestu flatbökur í heimi,“ segir Karl sem vann sem vann við húsasmíðar í 25 ár áður en hann hóf að rækta grænmeti á Flúðum með eiginkonu sinni. Í dag hefur dóttir þeirra hjóna tekið við rekstrinum á grænmetisframleiðslunni sem er við heimili þeirra hjóna í risastórum gróðurhúsum sem þau reistu sjálf og fluttu inn árið 1957. Karl hefur búið á Flúðum frá því hann var þriggja ára gamall en hann ólst upp á bænum Miðfelli sem er rétt við Flúðir.

Meistarasveifla- Karl Gunnlaugsson dúndraði þessum gula bolta langa vegalengd. Mynd/seth@golf.is

Skreið lærbrotinn inn á bílastæðið

Árið 2015 varð Karl fyrir því að lærbrotna þegar hann var staddur á 13. braut á Selsvelli. „Ég veit ekki alveg hvernig þetta gerðist en læknar telja að vöðvafesting hafi rifnað og klofið beinið í lærleggnum. Ég var með golfkerru á þessum tíma og ég hætti bara leik og félagar mínir héldu áfram. Ég taldi að þetta væri ekkert alvarlegt. Þegar ég gekk í átt að skálanum fór sársaukinn að gera meira vart við sig. Ég skildi golfsettið eftir á veginum við 18. braut og þegar ég kom inn á bílastæðið við klúbbhúsið þurfti ég að skríða. Það komu einhverjir mér til hjálpar og þetta fór nú allt saman vel.“

Karl átti þess kost að fara í aðgerð vorið 2016 til þess að laga meinið en hann frestaði því fram á haustið því hann vildi ekki eyðileggja golfsumarið 2016.

„Ég gat ekki hugsað mér það þar sem golfsumarið væri þá ónýtt. Ég læt laga þetta í haust, næ mér í vetur og verð tilbúinn næsta vor.“

Sláttur með orfi og ljá lagði grunninn að golfsveiflunni

Karl var mikið í íþróttum þegar hann yngri og hann sér eftir því að hafa ekki kynnst golfíþróttinni fyrr. „Ég væri eflaust atvinnumaður í golfi,“ segir hann í léttum tón en hann var mikið í frjálsíþróttum og sundi sem barn og unglingur. „Ég byrjaði í íþróttum þegar ég var tíu ára gamall og við strákarnir á Miðfelli og næsta nágrenni stofnuðum tvö íþróttafélög á þessum tíma. Þau fengu nöfnin Elding og Þróttur og kepptu sín á milli. Ég var gjaldkeri í Eldingu þegar ég var tíu ára gamall,“ segi Karl og dregur fram merkilega bók með fundargerðum frá árunum 1942-1950 þar sem árangur félagsmanna var skráður samviskusamlega niður í hinum ýmsum íþróttagreinum.

Keppnisskapið hefur alltaf verið til staðar hjá Karli og hann náði að komast í landslið öldunga sem er merkilega góður árangur hjá kylfingi sem hóf ekki að leika golf fyrr en á sextugsaldri.

„Ég var eiginlega bestur þegar ég var sjötugur. Þá var ég með 10 í forgjöf en í dag er ég með 15,6. Þegar ég hafði rétt til þess að keppa til landsliðs 70 ára og eldri var ég fyrstur til þess að tryggja mig inn í liðið. Ég er ekki mikið að spá í forgjöfina núna en ég vil leika undir aldri og það tekst nú oftast en högglengdin hefur minnkað mikið, ekki síst eftir lærbrotið í fyrra. Ég er vongóður um að þetta lagist á næsta ári.“

Karl er ekki í vafa að kunnátta hans frá því hann var ungur hafi nýst vel í golfinu og þar koma sveitastörfin við sögu. „Ég var mikið í því að slá með orfi og ljá og það þurfti að beita bolvindu við þá iðju. Golfsveiflan er ekkert ólík því sem maður beitti þegar þýfð tún voru slegin með orfi og ljá. Við þurftum að stýra ljánum og ég er viss um að þessi kunnátta nýttist mér þegar ég byrjaði í golfi,“ segir Karl.

Þrívegis hefur Karl farið í landsliðsverkefni með öldungalandsliðinu og einu sinni endaði liðið í þriðja sæti.

„Landsliðsferðirnar eru eftirminnilegar og gaman að fá að kynnast slíkum mótum og leika með kylfingum frá öðrum þjóðum. Ég hef notið þess að fá að fara til Spánar, Portúgals og Frakklands að keppa, það var ógleymanlegt. Ég hef gríðarlega gaman af því að keppa og Íslandsmót eldri kylfinga hafa verið fastir liðir hjá mér. Að vera í síðasta ráshóp á Urriðavelli á Íslandsmóti 70 ára og eldri var skemmtilegt.“

Karl segir það nánast ómögulegt að taka eina golfholu á Íslandi út fyrir sviga og útnefna hana sem eftirminnilegustu holu landsins eftir ferðalagið um Ísland. „Ég verð samt að nefna Bergvíkina á Hólmsvelli í Leiru, mér finnst gríðarlega gaman að standa á þeim teig og slá. Sömu sögu er að segja af 17. brautinni í Vestmannaeyjum.“

Jónas Ragnarsson var með augun á boltanum í upphafshögginu og haggaðist ekki. Mynd/seth@golf.is

Fer daglega í golf með félögunum

Karl fer nánast daglega í golf með þeim Helga Guðmundssyni, Pétri Skarphéðinssyni og Jónasi Ragnarssyni.

„Það koma dagar hér á Selsvelli þar sem við heimamenn komumst varla að. Ég reyni að fara flesta daga með strákunum og veðrið skiptir engu máli. Við klæðum veðrið bara af okkur.“

Besti árangur Karls í höggleik er 75 högg á Strandarvelli á Hellu eða +5 á rauðum teigum.

„Núna er ég hundfúll ef ég spila yfir aldri. Ég lék á 85 höggum um daginn og fékk eina sprengju, átta högg á 8. braut og missti tvö smápútt, það kostaði það að ég fór yfir aldurinn. Það verður alltaf erfiðara og erfiðara, höggin eru styttri en áður,“ segir Karl og er rokinn af 1. teig með golffélögum sínu á Selsvelli á Flúðum.

Karl er fæddur árið 1931 og hann rifjar upp skemmtilega tíma þegar hann stofnaði íþróttafélögin Eldingu og Þrótt árið 1942 í miðri heimsstyrjöld ásamt bræðrum sínum.

Gjaldkeri í Eldingu 10 ára gamall

„Það var skylda að skrá niður árangur í þessa bók, bróðir minn Skúli skrifaði þetta, en hann var fyrsti formaðurinn. Það var merkilegt hvernig við öfluðum peninga fyrir félagið. Við smíðuðum hringa úr fimmeyringum og fléttuðum belti. Þetta voru eins og giftingahringar og var vinsælt. Þetta var í miðri heimsstyrjöld og það voru hermenn í nágrenninu. Þeir voru ekki að slá golfbolta, ég vissi ekki hvað golf var á þessum tíma.“

Draumahöggið 12.10. árið 2010

Karl Gunnlaugsson hefur einu sinni slegið draumahöggið en það gerði hann þann 12. október árið 2010.

„Ég sló með 6-járni á fyrstu braut á Selsvelli sem var á þeim tíma par 3. Þetta var ósköp venjulegt högg, boltinn rúllaði eftir flötinni og fór ofan í holuna,“ segir Karl en skjalið frá Einherjaklúbbi Íslands er á góðum stað í bílskúrnum ásamt mörgum öðrum merkilegum hlutum.


Leikfélagarnir- Jónas Ragnarsson, Karl, Helgi Guðmundsson og Pétur Skarphéðinsson. Mynd/seth@golf.is

 

<strong>Bolta og verðlaunasafnið hjá Karli er stórt mikið og vel skipulagt<strong>
Exit mobile version