Site icon Golfsamband Íslands

Herb Page er ánægður með gæði kylfingana

Margreyndur þjálfari frá Kent State háskólanum, Herb Page, kom hingað til lands og fylgdist með Eimskipsmótaröðinni um seinustu helgi. Kent State hefur náð mjög góðum árangri í háskólagolfinu undanfarin ár, m.a. komist í NCAA lokakeppnina 5 af seinustu 6 keppnum, og endaði í 5. sæti 2012.

Frægasti kylfingur Kent State er Ben Curtis, en hann sigraði á British Open 2003, og hefur Page verið púttþjálfari hans í gegnum hans atvinnumannaferil.

Page var hér í þeim erindagjörðum að fylgjast með ungum íslenskum kylfingum, sem hann hefur verið í sambandi við á undanförnum mánuðum. Það eru meðmæli með barna-, unglinga- og afreksstarfi klúbbana hér heima, og kylfinganna sjálfra, að reyndur þjálfari frá jafn sterkum háskóla komi hingað til Íslands í heimsókn til að fylgjast með leikmönnum, en oftast þýðir það að ferli leikmannavalsins sé á lokastigum.

Þjálfarinn var mjög ánægður með gæði kylfinganna sem hann fylgdist með, og kom honum verulega á óvart hversu margir góðir ungir kylfingar voru hér. Honum þótti einnig mikið til koma framkoma kylfinganna, sem létu mjög erfiðar aðstæður ekki á sig fá, heldur héldu áfram ótrauðir og einbeittir.

Eitt af markmiðum afreksstefnunnar er að aðstoða okkar fremstu  ungu kylfinga við að komast í bestu skólana í bandaríkjunum, þar sem umgjörð er til þess fallin að kylfingarnir geti bætt sig verulega á þeim fjórum árum sem þeir leika með skólum sínum. Það verður því spennandi að fylgjast með framvindunni í þessum málum.

Exit mobile version