Site icon Golfsamband Íslands

Guðrún Brá dúxaði í golfreglunum hjá LET Evrópumótaröðinni

Guðrún Brá Björgvinsdóttir, Íslandsmeistari í golfi 2018, er nýliði á LET Evrópumótaröðinni. Keiliskonan náði bestum árangri allra nýliða á golfregluprófi sem LET og R&A lögðu fyrir alls 41 nýliða á LET Evrópumótaröðinni.

Þetta er fimmta árið í röð sem þessi háttur er hafður á hjá nýliðum á LET Evrópumótaröðinni. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og Valdís Þóra Jónsdóttir hafa báðar þreytt slíkt golfreglupróf.

Prófið er tekið á vefsíðu R&A og þar er farið yfir helstu golfreglurnar. Allir nýliðar á LET verða að þreyta þetta próf.

Mike Round, þróunarstjóri hjá LET, segir að prófið sé nauðsynlegt fyrir alla kylfinga og sérstaklega atvinnukylfinga.

„Hvert högg í keppni hjá atvinnukylfingum skiptir máli. Þeir sem eru vel að sér í golfreglunum geta komið í veg fyrir að tapa höggi eða höggum vegna vankunnáttu í golfreglunum. Góð þekking á reglunum gerir það að verkum að kylfingar verða síður taugaóstyrkir þegar þeir þurfa að taka ákvarðanir úti á vellinum sem tengjast golfreglunum. Við viljum að kylfingum gangi vel úti á vellinum og þeim sem ná að halda ró sinni og líður vel gengur oftast betur,“ segir Round m.a. í fréttatilkynningu frá LET.

Haukur Örn Birgisson forseti GSÍ afhenti Guðrúnu Brá verðlaunagrip og skjal fyrir árangurinn á golfprófinu hjá LET og R&A. Athöfnin fór fram á aukaþingi GSÍ sem fram fór í Laugardalshöll þann 11. maí.

Exit mobile version