Golfsamband Íslands

Golfreglur 2019: Að slá högg innan vítasvæðis

Fréttaskot frá dómaranefnd GSÍ þar sem fjallað er um breytingarnar á golfreglunum.


Reglurnar eru nú mun frjálslegri varðandi högg sem slegin eru innan vítasvæða (áður vatnstorfæra).

Nú máttu fjarlægja lausung innan vítasvæðis, þú mátt leggja kylfuhausinn niður og kylfuhausinn má snerta vatn innan vítasvæðisins. Þegar þú fjarlægir lausung þarftu samt að fara varlega, því á sama hátt og t.d. á braut eða í karga færðu víti ef boltinn hreyfist þegar þú fjarlægir lausungina.

Ef þú slærð högg innan vítasvæðis gilda því í raun sömu reglur um hvernig þú átt að bera þig að eins og á almenna svæðinu, svo sem á braut eða í karga.

Tilgangurinn með þessari breytingu er að einfalda reglurnar og þar með að fækka vítum vegna misskilnings leikmanna um hvað þeir megi gera. Vítasvæðum er ekki ætlað að gera leikmönnum erfiðara að slá högg heldur er tilgangur þeirra fyrst og fremst að veita leikmönnum auka lausnarmöguleika ef bolti þeirra hafnar á svæðum þar sem boltar vilja týnast eða þar sem erfitt er að leika boltanum.

Sjá reglur 15.1 og 17.1

Exit mobile version