Golfsamband Íslands

Góð staða á golfvöllum landsins – opnað inn á sumarflatir og bjartsýni ríkir hjá kylfingum

Frá Arctic Open golfmótinu á Jaðarsvelli 2015. Mynd/ Auðunn Níelsson

Það má með sanni segja að óveðrið sem gekk yfir landið um s.l. helgi hafi glatt vallarstjóra landsins. Hár lofthiti samhliða hvassviðrinu bræddi snjó og klaka sem hafði legið yfir flestum golfvöllum landsins um langan tíma.

Útlit er fyrir að hægt verði að leika inn á sumarflatir á mörgum völlum landsins áður en langt um líður – sem er að sjálfsögðu góðar fréttir fyrir kylfinga landsins.

[pull_quote_left]„Staðan hjá okkur er mjög góð og flatirnar líta virkilega vel út og við því bjartsýnir á framhaldið,“ segir Ágúst Jensson framkvæmdastjóri Golfklúbbs Akureyrar um stöðuna á Jaðarsvelli þessa dagana. [/pull_quote_left]Íslandsmótið í golfi á Eimskipsmótaröðinni fer fram á Jaðarsvell í sumar og ríkir mikil bjartsýni hjá Akureyringum varðandi golfsumarið 2016.

„Sú vinna sem farið var í um miðjan janúar, þegar klaki var brotinn á öllum flötum vallarins, virðist vera að skila sér virkilega vel. Við blésum snjó af flötunum í byrjun síðustu viku. Sunnanáttin, rigningin og hitinn hefur séð um rest fyrir okkur. Allar flatir eru nánast auðar og við það að verða frostlausar. Eins og staðan er núna þá getum við farið að bera á þær áburð og styrkja þær þannig fyrir vorið og hjálpa þeim svo þær komi sterkar inn í sumarið. Þannig að við erum full bjartsýni hér fyrir norðan og horfum björtum augum á sumarið,“ bætti Ágúst við.

Golfmót á dagskrá um páskana 

Svipaða sögu er að segja af golfvöllum á sunnanverðu landinu. Golfklúbbur Suðurnesja hefur m.a. sett mót tvö mót á dagskrá í lok mars. Stefnt er að því að opna inn á sumarflatirnar á Hólmsvelli í Leiru fimmtudaginn 24. mars n.k með opnu móti, 25., 26. og 27. mars verður opið fyrir spil, og páskahelginni lýkur með opnu golfmóti 28. mars.

Ómar Friðriksson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Reykjavíkur, segir að staðan á völlum GR sé góð miðað við árstíma, „Við erum bjartsýn en gerum okkur grein fyrir að það getur ýmislegt gerst hvað veðrið varðar á næstu vikum. Okkar frábæru vallarstarfsmenn hafa gert góða hluti í vetur á völlum GR. Mikil áhersla hefur verið lögð á að moka og bræða snjó af flötum í vetur. [pull_quote_left]Eins og staðan er núna þá eru allar flatir á völlum GR lausar við snjó og klaka – og það er gleðiefni og það ríkir tilhlökkun hjá okkur fyrir golftímabilinu. Ómar F.[/pull_quote_left]

Brynjar Sæmundsson vallarstjóri Garðavallar á Akranesi segir að hlýindi og rigning undanfarna daga séu mjög góð tíðindi fyrir golfvelli landsins.

Þórður Emil Ólafsson, fyrrum Íslandsmeistari í golfi, rifjaði upp gamla takta á flatarslátturvélinni á Garðavelli í vorverkum hjá Leyni 2014.
Þórður Emil Ólafsson, fyrrum Íslandsmeistari í golfi, rifjaði upp gamla takta á flatarslátturvélinni á Garðavelli í vorverkum hjá Leyni 2014.
Ástandið lofar góðu fyrir sumarið

„Lítill klaki hefur verið á Garðavelli í vetur og því engar skemmdir í vellinum. Jarðklaki, sem oftar en ekki er dragbítur á opnun vallarins á vorinn, er nú á miklu undanhaldi og yfirborðsvatn situr ekki lengur í lægðum í grassverðinum. [pull_quote_right]Ástand vallarins lofar mjög góðu fyrir golftímabilið svo fremi sem veðrið verður skaplegt næstu vikur. Brynjar S.[/pull_quote_right] Það er of snemmt að spá fyrir um opnun Garðavallar að svo stöddu en óneitanlega erum við bjartsýnir á snemmbúna opnun þetta vorið,“ sagði Brynjar.

Tryggvi Ölver Gunnarsson, vallarstjóri Urriðavallar, segir að völlurinn líti ágætlega út þessa dagana en of snemmt sé að segja til um hvenær hægt verði að opna völlinn. Golfklúbburinn Oddur verður gestgjafi á Evrópumóti kvennalandsliða sem fram fer í byrjun júlí en mótið verður það stærsta sem haldið hefur verið á Íslandi.

[pull_quote_center]Veðurspá næstu daga lítur vel út og vonandi fáum við milt og gott vor. Tryggvi Ö.[/pull_quote_center] Klaki og snjór er að mestu farinn af Urriðavelli. Vallarstarfsmenn unnu sleitulaust að því í vetur að brjóta upp klaka til að koma í veg fyrir skemmdir í flötum. Sú vinna er að skila sér því margar flatir líta vel út,“ segir Tryggvi Ölver en hann var kjörinn vallarstjóri ársins 2015 hjá SÍGÍ.

Frá Urriðavelli þegar faltir voru slegnar vorið 2015.
Exit mobile version